Pep vill fá fyrrum leikmann Liverpool - Liverpool fylgist með tveimur Svíum - Grealish orðaður við Tottenham
   þri 12. nóvember 2024 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Guðrún og Hlín tilnefndar til verðlauna í Svíþjóð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sænska deildartímabilinu er lokið í kvennaflokki þar sem nokkrar íslenskar fótboltakonur stóðu sig feykilega vel.

Tvær þeirra hafa verið tilnefndar til verðlauna eftir tímabilið og fer verðlaunaafhendingin fram núna á fimmtudagskvöldið.

Guðrún Arnardóttir kemur til greina sem besti varnarleikmaður ársins í efstu deild sænska boltans, þar sem hún lék lykilhlutverk í meistaraliði Rosengård sem gjörsamlega rúllaði deildinni upp.

Rosengård vann alla deildarleiki tímabilsins nema einn og fékk aðeins 9 mörk á sig í 25 leikjum.

Guðrún er ein af þremur sem koma til greina í valinu á varnarmanni ársins, ásamt liðsfélaga sínum Rebecca Knaak og Josefine Rybrink sem er á mála hjá BK Häcken.

Hlín Eiríksdóttir kemur þá til greina sem besti framherji ársins í efstu deild eftir að hafa endað sem næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar.

Hlín skoraði 15 mörk og gaf 4 stoðsendingar fyrir Kristianstad, sem endaði í fjórða sæti. Momoko Tanikawa, í liði FC Rosengård, var sú eina sem skoraði meira á tímabilinu en hún spilar sem framsækinn miðjumaður og er því ekki í samkeppni við Hlín.

Hlín er í keppni við Cathinka Tandberg, úr liði Hammarby, og Olivia Holdt, úr liði FC Rosengård, í kjörinu um framherja ársins.
Athugasemdir
banner
banner
banner