Magnús Már Einarsson þjálfari Aftureldingar var svekktur með að taka ekki sigurinn en var ánægður með fyrsta stig þeirra í efstu deild eftir að þeir gerðu 0-0 jafntefli við ÍBV.
Lestu um leikinn: Afturelding 0 - 0 ÍBV
„Við vildum meira í dag. Við vorum fínir varnarlega, fínt að ná að halda hreinu en við þurfum að vera skarpari sóknarlega og skapa okkur meir, og gera meira á síðasta þriðjung."
Eins og við má búast í 0-0 jafntefli var sóknarleikurinn ekki upp á marga fiska í dag. Afturelding hefur oft spilað góðan sóknarleik og það er gír sem þeir þurfa að komast í aftur.
„Við þurfum að vera aðeins hugrakkari. Við höfum skorað mikið af mörgum undanfarin ár, og í vetur, í aðdraganda þessa móts. Við erum vanir því að skapa okkur og skora. Þannig við þurfum að finna það, fá aðeins meira flæði í sóknarleikinn og vera aðeins hugrakkari, vera grimmari þegari við erum að sækja. Það er bara eitthvað sem við munum fara yfir á æfingasvæðinu á næstu dögum, hvernig við getum búið til fleiri færi og skorað fleiri mörk."
Elmar Kári er búinn að vera í meiðslavandræðum en kom inná í dag. Hann er lykilmaður í liðinu og Afturelding þarf á honum að halda í byrjunarliðinu.
„Elmar kom flottur inná í dag og hann fer bara vaxandi. Hann lenti í erfiðum meiðslum sem hann er búinn að vera duglegur í að vinna sig upp úr. Hann er kominn á fleygiferð núna, byrjaður að æfa á fullu og kom inná í fyrsta leiknum, svo aftur í dag. Hann er vaxandi og verður bara betri eftir því sem líður á mótið."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.