Kristján Flóki Finnbogason opnaði markareikning sinn á þessu tímabili í gær þegar hann skoraði í sigri FH á Val, en liðin mættust í 5. umferð Bestu deildarinnar á Kaplakrikavelli í gær. Flóki, eins og hann er yfirleitt kallaður, er framherji sem sneri aftur í FH síðasta sumar eftir að hafa leikið með KR síðustu ár á undan.
Hann skoraði eitt mark á lokakaflanum í fyrra og er nú kominn á blað 2025. Framherjinn ræddi við Fótbolta.net í dag.
Hann skoraði eitt mark á lokakaflanum í fyrra og er nú kominn á blað 2025. Framherjinn ræddi við Fótbolta.net í dag.
Lestu um leikinn: FH 3 - 0 Valur
„Þetta var það sem við vorum búnir að bíða eftir. Tilfinningin er mjög góð, við náðum loksins að sýna hvað við erum að gera. Við erum því miður búnir að vera helvíti lengi í gang. Tilfinningin að vinna leik og skora mörk er frábær, það verður ekki betra en það," sagði Flóki.
Eignar sér bæði mörkin
Guðmundur Benediktsson lýsti leiknum á Stöð 2 Sport og talaði um að Flóki hefði skorað eitt og hálft mark í leiknum. Fyrsta mark leiksins var tilraun frá Flóka sem fór af Patrick Pedersen og í mark Vals. Fótbolti.net skráði það sem sjálfsmark í textalýsingunni í gær en í leikskýrslu KSÍ er markið skráð á Flóka.
„Þetta voru tvö mörk! Hann er klárlega að snúast í átt að markinu í fyrra markinu," sagði Flóki og náði næstum því að sannfæra undirritaðan.
Í Mandzukic hlutverkinu
Honum var stillt upp á hægri kantinum í gær en var duglegur að koma sér í svæði í kringum Úlf Ágúst Björnsson sem spilaði fyrir miðju í sóknarlínunni.
„Ég er svona hægra megin við Úlf í uppstillingunni, varnarlega er ég hægri kantmaður, en ég er ekki týpískur kantmaður, er meiri framherji og er meira að reyna draga mig inn á völlinn og spila sem annar framherji; aðstoða Úlf."
Jóhann Már Helgason í Dr. Football líkti hlutverki Flóka í gær við það sem Mario Mandzukic gerði stundum á sínum ferli, var úti á kantinum en var svo oft mættur í atganginn miðsvæðis.
„Það er örugglega mjög góð lýsing á þessu. Það er bara gaman að fá svona líkingar," segir Flóki sem var líkt við Joelinton fyrr í vetur.
Fínt að taka klukkutíma eftir veikindi
Hann fór af velli eftir rúman klukkutíma í gær, hann glímdi við meiðsli í aðdraganda móts en segir að skrokkurinn sé fínn.
„Völlurinn er þungur, maður gefur sig allan í verkefnið og svo þegar klukkutími er búinn þá tók Heimir ákvörðun að fá ferskar lappir inn. Ég hef verið á sama stað og Böddi, búinn að glíma við einhver veikindi upp á síðkastið. 60 mínútur var bara mjög gott."
Sáu það helsta frá 2005 tímabilinu fyrir leik
Af hverju náðuð þið að gíra ykkur svona vel inn í þennan leik, var eitthvað sérstakt sem þið gerðuð fyrir leik?
„Á skjánum inni í klefa voru 'highlights' frá 2005 tímabilinu, það var alveg geggjað að horfa á það. Heimir var náttúrulega þá að spila og það var mikið hlegið. Annars var ekkert sérstakt sem við gerðum þannig séð, það var bara kominn tími á að sýna að við erum hér til að taka alvöru þátt, ekki til að fljóta bara með."
Það hefur verið gott að sjá FH lið vinna leiki, eins og það gerði mikið af árið 2005, var það pælingin?
„Þetta var bara í sjónvarpinu á Stöð 2 Sport, bara tilviljun. Mín kenning er sú að þetta hafi gírað menn ágætlega fyrir leik."
Björn Daníel sinnir fyrirliðahlutverkinu vel
Í viðtali við Stöð 2 Sport talaði Björn Daníel Sverrisson, fyrirliði FH, um að hann hafi verið í pepphlutverki í vikunni fyrir leik. Var þín tilfinning líka að hann hafi sérstaklega verið í því?
„Björn Daníel er nú bara alltaf frekar peppandi, eins skemmtilegur karakter og hann er. Ég fann ekkert þannig séð meira fyrir því en vanalega, en hann sinnir þessu fyrirliðahlutverki mjög vel."
Mjög vel útfærð sókn
Annað mark FH skoraði Flóki eftir að Björn Daníel átti stangarskot. Flóki var fyrstur á boltann og kom honum í netið. Mörkin úr leiknum má sjá hér neðst í fréttinni.
„Ég upplifði þetta þannig að annar miðvörðurinn var á Úlfi og hinn á mér, það opnaði þvílíkt pláss fyrir Björn Daníel að hlaupa inn í. Svo var bara spurning um að vera klár ef það skildi koma frákast. Þetta var mjög vel útfærð sókn hjá okkur fannst mér."
„Þetta er eitthvað sem er sagt, partur af því að vera þjálfari, ýta undir það hjá framherjum að þeir séu klárir í frákastið."
Erfitt að koma í Krikann og mæta FH
FH var að vinna sinn fyrsta leik eftir ellefu leiki án sigurs. Öll fjögur stig liðsins í ár hafa komið þegar spilað er á grasi, Kaplakrikavelli. Eruð þið allt annað lið á grasi?
„Nei, ég myndi nú ekki segja að við værum eitthvað annað lið á grasi. En það er erfitt að koma í Krikann og mæta FH. Lið eiga að vera hrætt við að koma hingað og það gæti spilað inn í. Ég hugsa samt að við séum sama lið, sama hvort við séum á gervigrasi eða grasi."
Þurfa að sjá til þess að æfingavikan verði jafngóð
Næsti leikur verður gegn Víkingi á Víkingsvelli. Hvernig leggst það í Flóka?
„Mjög vel, er bara spenntur fyrir því, við verðum bara að sjá til þess að æfingavikan verði jafngóð og fyrir Valsleikinn. Svo mætum við bara brjálaðir á Víkingsvöll."
Ekkert pláss fyrir veikindi
Talandi um góða æfingaviku, þú og Böddi búnir að vera veikir, voruð þið bara að harka ykkur í gegnum þetta?
„Það er í rauninni ekkert pláss fyrir veikindi, maður þarf bara sjúga upp í nefið og halda áfram. Það er bara harkan sex," sagði Flóki á léttu nótunum í lokin.
Athugasemdir