Inter Miami vill De Bruyne - Al-Nassr hefur áhuga á Díaz - Everton blandar sér í baráttu um Delap
   sun 13. apríl 2025 11:35
Brynjar Ingi Erluson
Óvíst hvort Partey og White verði með gegn Real Madrid
Thomas Partey
Thomas Partey
Mynd: EPA
Arsenal-mennirnir Ben White og Thomas Partey gætu misst af síðari leik liðsins gegn Real Madrid í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á miðvikudag.

Partey meiddist í 1-1 jafntefli Arsenal gegn Brentford og þurfti að fara af velli en White tók ekki þátt í verkefninu vegna meiðsli og er staðan óljós fyrir leikinn mikilvæga gegn Madrídingum.

„Við bjuggumst ekki við að þurfa taka Thomas af velli, en hann fann fyrir einhverju þannig við vildum ekki taka áhættuna. Við höfum ekki rætt við læknana þannig við vitum ekki stöðuna, en þeir munu skoða hann og sjá hvernig honum líður,“ sagði Arteta.

White missti alfarið af verkefninu gegn Brentford og gat Arteta ómögulega sagt til um hvort hann verði klár í að ferðast með liðinu til Spánar.

„Við vitum það ekki. Hann var ekki í standi til þess að vera valinn í hópinn gegn Brentford þannig við verðum bara að bíða og sjá hvað gerist á næstu dögum.“

Ítalski miðjumaðurinn Jorginho fór einnig af velli eftir að hafa átt erfitt með andardrátt. Arteta grunar að það hafi eitthvað með rifbeinin að gera og að það þurfi að vera eitthvað stórkostlega mikið að þegar Jorginho getur ekki haldið leik áfram.

Partey var sá eini af þessum þremur leikmönnum sem byrjaði fyrri leikinn gegn Real Madrid. White kom inn af bekknum undir lok leiks á meðan Jorginho var ónotaður varamaður.
Athugasemdir
banner