Atli Þór Jónasson og Eiður Gauti Sæbjörnsson eru sóknarmenn sem gaman verður að fylgjast með í Bestu deildinni næsta sumar. Þeir voru liðsfélagar síðasta sumar en munu nú mætast sem andstæðingar.
Eiður Gauti gekk í raðir KR fyrir stuttu eftir að hafa leikið eitt tímabil með HK í Bestu deildinni en Atli er á leið til Víkings eftir að hafa leikið með HK-ingum undanfarin tvö tímabil.
Eiður Gauti gekk í raðir KR fyrir stuttu eftir að hafa leikið eitt tímabil með HK í Bestu deildinni en Atli er á leið til Víkings eftir að hafa leikið með HK-ingum undanfarin tvö tímabil.
Saga þeirra beggja er mjög áhugaverð þar sem þeir þurftu báðir að hafa mikið fyrir því að komast á þann stað sem þeir eru í dag.
Þeir léku báðir í 4. deildinni og röðuðu þar inn mörkum. Voru þeir til að mynda báðir í deildinni árið 2022; Atli með Hamri og Eiður Gauti með Ými.
Atli Þór, sem er fæddur árið 2002, ólst upp í Hveragerði og steig sín fyrstu skref í meistaraflokki með Hamri. Þessi stóri og stæðilegri framherji vakti athygli HK eftir að hann skoraði 17 mörk í 14 leikjum í 4. deild sumarið 2022.
„Það kom mér alveg smá á óvart að ég gæti haldið í við þessa gæja," sagði Atli í viðtali við Fótbolta.net fyrir tímabilið í fyrra um það hvernig var að koma úr 4. deild og beint upp í Bestu deildina.
Hann og Eiður Gauti léku svo saman með HK síðasta sumar. Eiður skipti í HK rétt fyrir mót í fyrra en þeir sem fylgjast með neðri deildum vita nákvæmlega hver hann og hafa vitað það í mörg ár. Hann hafði nefnilega raðað inn mörkum fyrir Ými í fjölda ára, þar á meðal gerði hann 23 mörk í 13 leikjum í 4. deild sumarið 2022. Sumarið sem Atli raðaði einnig inn mörkum.
„Hann var mjög efnilegur spilari þegar hann var yngri og var fínn þegar hann byrjaði að spila með meistaraflokki. Svo bara æxluðust hlutirnir þannig að hann valdi að gera annað. Við erum búnir að reyna sannfæra hann um að gefa þessu séns í flestum félagaskiptagluggum - átt þessi samtöl við hann og honum staðið til boða að skipta yfir áður. Það er mikið ánægjuefni að hann hafi ákveðið að taka slaginn," sagði Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, um Eið fyrir síðustu leiktíð.
Eiður Gauti skoraði fjögur mörk í 14 leikjum fyrir HK og fékk svo félagaskipti yfir í KR. Það borgaði sig fyrir hann að taka stökkið og reyna á þetta.
Þetta eru tveir leikmenn sem blómstruðu í neðri deildum og munu nú leiða sóknarlínuna hjá liðum sem ætla sér að berjast í efri hlutanum í Bestu deildinni í sumar.
Athugasemdir