Man Utd reynir við Gyökeres í þessum glugga - Trent færist nær Real Madrid - Arsenal leiðir kapphlaupið um Omar Marmoush
   fim 14. apríl 2016 14:15
Elvar Geir Magnússon
Pepsi-deildin
Lykilmaðurinn: Verður ekki leiðinlegt að koma á KR-völlinn
Þorsteinn Már Ragnarsson - Víkingur Ó.
Þorsteinn er kominn aftur í búning Víkings Ólafsvík.
Þorsteinn er kominn aftur í búning Víkings Ólafsvík.
Mynd: Víkingur Ólafsvík
Þorsteinn í leik með KR í fyrra.
Þorsteinn í leik með KR í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Hópurinn er skipaður góðum leikmönnum þó það vanti meiri breidd í aftari stöður," segir sóknarmaðurinn Þorsteinn Már Ragnarsson, lykilmaður nýliða Víkings í Ólafsvík. Ólsurum er spáð 11. sæti og þar með falli beint niður úr Pepsi-deildinni í sumar.

„Það vantar í miðvörðinn fyrst við misstum Admir Kubat í meiðsli, besta varnarmann liðsins í fyrra. Það þarf að bæta við varnarlega en fram á við er samkeppnin góð, bæði hvað varðar kantmenn og sentera."

Þorsteinn Már er á 26. aldursári en það eru níu ár síðan hann spilaði sinn fyrsta Íslandsmótsleik með Ólafsvíkurliðinu. Fyrir tímabilið 2012 gekk hann svo í raðir KR en eftir tímabilið í fyrra snéri hann heim.

„Síðan ég var hérna síðast hefur liðið orðið betra og umgjörðin í kringum félagið orðið aðeins betri. Menn eru orðnir reyndari eftir að hafa verið einu sinni áður í efstu deild."

Mikill stöðugleiki hefur verið í kringum Ólafsvíkurfélagið og sömu mennirnir haldið um stjórnartaumana lengi.

„Þetta eru allt eðalmenn sem halda vel utan um þetta. Ég er mjög spenntur fyrir sumrinu og ég get ekki beðið eftir því að spila í efstu deild með Víkingi Ólafsvík," segir Þorsteinn sem var hjá KR þegar Ólafsvíkurliðið lék í Pepsi-deildinni 2013.

Maður vill sýna sig og sanna
Þorsteini tókst ekki að vinna sér inn fast sæti hjá KR og fer ekki leynt með það að hann var ósáttur við spiltímann hjá Vesturbæjarliðinu þar sem hann var mikið á bekknum í fyrra.

„Ég hugsa á jákvæðan hátt um árin sem ég var hjá KR. Ég hef ekkert út á þann tíma að setja nema spiltímann hjá mér. Allt annað var í toppmálum þó það gekk ekki upp að ég hafi náð að spila eins mikið og ég vildi. Maður verður bara að bíta í það."

Hann vill væntanlega sýna KR-ingum það í sumar að hann hefði átt að fá stærra hlutverk?

„Maður verður náttúrulega að reyna það. Maður vill sýna það og sanna að maður eigi heima í þessari deild. Það verður ekki leiðinlegt að koma á KR-völlinn. Maður bíður spenntur eftir því," segir Þorsteinn sem er greinilega búinn að merkja við 10. júlí á dagatalinu.

Ólafsvíkurliðið er sem stendur í æfingaferð úti á Spáni.

„Það hefur gengið vel hérna úti, æfingar gengið vel og við erum á leið í leik á eftir gegn einhverju spænsku liði," segir Þorsteinn að lokum en hljóðviðtal við þjálfara Víkinga, Ejub Purisevic, mun birtast í næstu viku þegar liðið er komið til landsins á ný.

Lykilmennirnir:
Dion Acoff - Þróttur
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner