„Mér líst mjög vel á leikinn í dag. Þetta verður erfiðari leikur en síðasti leikur, Ítalarnir eru að mínu mati sterkari en Belgarnir þannig ég á von á erfiðum leik í dag en ef þær þjappa sér vel saman eigum við að geta náð í úrslitin sem við viljum," sagði Andri.
Andri komst ekki á leikinn gegn Belgíu þar sem hann var veikur heima.
„Ég lenti í Covid heima þannig ég sat fastur, fjölskyldan fór út og ég var eftir með tárin í augunum í sófanum að fylgjast með stemningunni. Nú er ég mættur og þetta er rosalegt, æðislegt að vera í kringum Íslendingana, þeir kunna að búa til stemningu."
Hann er eðlilega gríðarlega stoltur af dóttur sinni en hann vonast til að hún fái að sýna sig á mótinu.
„Það er stórkostlegt, mest fyrir hana. Hún er yngst á mótinu og það er árangur í sjálfum sér fyrir hana. En hún er hérna því hún er frambærileg í fótbolta. Sem pabbi gerir það þetta extra skemmtilegt en við erum hér til að styðja liðið og svo vonandi fær hún nokkrar mínútur til að sýna hvað hún getur," sagði Andri.