„Fyrstu viðbrögð eru ekki góð, tilfinningin fyrir leikinn var að við myndum ná að vinna leikinn, vorum allar peppaðar og leiðinlegt að tapa," sagði Berglind Rós Ágústsdóttir í viðtali við Fótbolta.net eftir tapleikinn gegn Finnlandi í vináttulandsleik í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísland 1 - 2 Finnland
Berglind kom inn í hægri bakvörðinn þegar hún kom inn á sem varamaður eftir rúmlega klukkutíma leik. „Ég átti að vera tilbúin að koma inn í varnarlínuna, Steini horfði á mig þar fyrir þennan leik. Það var bara frábært að fá að spila hægri bakvörð, mjög skemmtileg staða, margar stelpur sem eru í þessari stöðu og maður heldur áfram að keppast um hana. Þarna tekuru þátt bæði sóknar- og varnarlega sem er mjög gaman."
Skömmu eftir að Berglind kom inn á þá skoraði Finnland eftir að hafa komist upp úti vinstra megin hjá sér.
„Ég tek þetta alveg á mig, átti að gera betur þarna og er alveg á því. Ég er að hugsa til baka og hugsa þetta fram og til baka - hugsa um hvað ég hefði átt að gera og á morgun geri ég betur og hætti að pæla í því."
„Hún gerði þetta mjög snögglega og ég þarf bara að halda áfram að æfa mig í snerpunni og því öllu. Ég hefði átt að gera betur, þýðir ekkert að væla, bara halda áfram."
Berglind skoraði eina mark Íslands í leiknum og minnkaði muninn í 1-2.
„Já, ég er ánægð með markið. Ég hlakka til að sjá það aftur, mig langaði rosalega að (skora), mér fannst eins og ég þyrfti að bæta upp fyrir annað markið. Þetta er fyrsta skallamarkið á ferlinum, mjög gaman."
„Geggjuð aukaspyrna frá Karólínu, bara beint á kollinn á mig og ég þurfti ekki voða mikið að gera. Geggjað að fá þannig spyrnur þar sem maður þarf bara að snerta boltann," sagði Berglind um markið.
Leikurinn í kvöld var fimmti landsleikur hennar og sá fyrsti síðan haustið 2021.
„Það er alltaf gaman í bláu treyjunni, mjög gaman og alltaf heiður að fá að spila í þessari treyju," sagði Berglind.
Athugasemdir