Siggi Höskulds, þjálfari Þórs, var að vonum ánægður að enda tímabilið á 1-2 sigri á Gróttu þrátt fyrir vonbrigða gengi heilt yfir.
Lestu um leikinn: Grótta 1 - 2 Þór
Fyrsta spurning. Hvernig er tilfinningin eftir leik?
„Hún er bara góð. Kærkomið að ná inn sigri og sjá fleiri stig á töflunni þó ég hefði viljað skoppa upp um eitt sæti. Ánægður með sigurinn.“
Hvað olli því að Þór komst ekki upp úr deildinni?
„Skrýtið tímabil. Þegar við vorum að komast í gang eftir smá kafla í byrjun móts þá misstum við takið á því. Stundum líður manni eins og allt sé á móti manni og að tapa leikjum sem við áttum ekki að tapa. Þetta var bara skrýtið tímabil og tímabil sem við lærum svakalega mikið. Við erum staðráðnir í að koma tvíefldir til leiks á næsta ári.“
Næsta spurning snéri einmitt að því hvort þú yrðir með liðið á næsta tímabili. Verður þú áfram með liðið?
„Já alveg 100%. Það var ekki krafa að fara upp í fyrstu atrennu en vissulega er stigasöfnunin það slæm að við þurfum að spýta í og ég verð að taka ábyrgð á því og ég mun gera það.“
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.