banner
   þri 15. júní 2021 19:52
Mist Rúnarsdóttir
Steini Halldórs: Gerðum hlutina betur í seinni hálfleik
Icelandair
Þorsteinn Halldórsson stýrði Íslandi til sigurs í báðum leikjunum gegn Írlandi
Þorsteinn Halldórsson stýrði Íslandi til sigurs í báðum leikjunum gegn Írlandi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Cessilía Rán hélt hreinu í kvöld
Cessilía Rán hélt hreinu í kvöld
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Leikurinn var svolítið kaflaskiptur. Við lentum í smá vandræðum í fyrri hálfleik. Vandræðum með pressu en fórum yfir það í hálfleik og það var betra,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, aðspurður um 2-0 sigurleikinn gegn Írlandi. Þorsteinn sat fyrir svörum á blaðamannafundi eftir leik ásamt framherjanum Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur og fór yfir það helsta.

Eftir slakan fyrri hálfleik náði íslenska liðið betri takti í þeim síðari. Hver var munurinn á tveimur ólíkum hálfleikjum?

„Við löguðum færslur í varnarleiknum. Fórum að vinna boltann aðeins ofar og gerðum þeim erfiðara fyrir að spila boltanum út úr vörninni. Við fórum bara yfir það hvernig við vildum gera hlutina og gerðum það miklu betur í seinni hálfleiknum,“ svaraði landsliðsþjálfarinn og sagðist sáttur við uppskeruna úr tvíhöfðanum gegn Írum.

„Það er gott að vinna og gott að halda hreinu í dag. Við hefðum alveg getað skorað fleiri mörk í dag. Við sköpuðum mjög góð færi í leiknum sem við hefðum getað nýtt en ég er ánægður með að vinna leikinn og heilt yfir fannst mér stígandi í leiknum.“

Ísland vann fyrri viðureign liðanna 3-2 og var frammistaða liðsins í fyrri hálfleik þess leiks mjög góð. Það var svo síðari hálfleikurinn sem skóp sigurinn í dag. Steini var beðinn um skýringu á því af hverju leikirnir voru kaflaskiptir.

„Aðstæður höfðu kannski áhrif í fyrri leiknum. Það var erfitt að spila á móti vindi. Það skýrir að hluta til kannski muninn á milli hálfleikja þar. Í dag stigum við bara upp og gerðum hlutina betur í seinni hálfleik. Ég er sáttur við að við náðum að bregðast við og leysa hlutina, koma út og spila bara fínan seinni hálfleik.“

Undir lok blaðamannafundar var Steini spurður út í frammistöðu einstakra leikmanna, þá sérstaklega ungliðanna Cesselíu í markinu og Hafrúnar Rakelar sem lék í stöðu hægri bakvarðar.

„Cesselía gerði vel það sem hún þurfti að gera. Ég held að hún hafi bara einu sinni þurft að skutla sér á eftir skoti. Hún gerði það vel og var örugg í öllu sem hún þurfti að gera. Ég er sáttur við hennar framlag í dag.“

„Hafrún var fín varnarlega. Smá óðagot á henni stundum en gerði vel heilt yfir,“
svaraði Steini og hrósaði einnig Andreu Rán sem kom inná af krafti í hálfleik.

„Hún gerði það sem hún gerir vel. Að halda bolta og dreifa spilinu. Hún kom vel inn í þetta.“

Næsta verkefni A-landsliðsins er svo stórleikur gegn Hollandi í undankeppni HM en sá verður spilaður á Laugardalsvelli þann 21. september næstkomandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner