„Þetta var bara lélegur leikur," sagði Gunnlaugur Fannar Guðmundsson leikmaður Keflavíkur eftir markalaust jafntefli gegn Dalvík/Reyni á Dalvík í dag.
Lestu um leikinn: Dalvík/Reynir 0 - 0 Keflavík
„Við náðum aldrei að komast á almennilegt tempó. Þeir gera vel með því að drepa leikinn, það er ekkert flóknara en það. Við fórum á þeirra plan, þetta fór í einhvern skrípaleik og við komumst aldrei úr því."
Amin Guerrero Touiki leikmaður Dalvíkur/Reynis fékk að líta rauða spjaldið undir lok fyrri hálfleiks fyrir að kýla Gunnlaug í punginn.
„Hann kýlir mig bara í punginn og á að fá rautt spjald. Svo fæ ég gult út af því að dómarinn er svo lengi að átta sig á hlutunum, línuvörðurinn á að flagga strax og þá hefði ég aldrei fengið gult spjald," sagði Gunnlaugur.
„Það er smá kítingur sem gerist í fótbolta en ég bjóst aldrei við króknum. Ég var ennþá að drepast í seinni hálfleik, ég var með verk alveg upp í geirvörtur," sagði Gunnlaugur enn frekar en hann sagðist vera að koma til.