PSG leiðir kapphlaupið um Salah - Tuchel á blaði Man Utd - Newcastle líklegt til að reyna aftur við Guehi
   sun 15. september 2024 10:42
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Var á leið erlendis þegar kallið kom frá uppeldisklúbbnum - „Ef ekki núna, þá aldrei"
Eiður Gauti er 26 ára framherji, uppalinn í HK en hefur mest leikið með Ými í 3. og 4. deild og raðað þar inn mörkum.
Eiður Gauti er 26 ára framherji, uppalinn í HK en hefur mest leikið með Ými í 3. og 4. deild og raðað þar inn mörkum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hann fékk kallið frá uppeldisklúbbnum í vor og svaraði játandi.
Hann fékk kallið frá uppeldisklúbbnum í vor og svaraði játandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hann verður að öllum líkindum í eldlínunni gegn Breiðabliki í nágrannaslagnum í dag.
Hann verður að öllum líkindum í eldlínunni gegn Breiðabliki í nágrannaslagnum í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þetta eru leikirnir sem mann dreymir um að spila'
'Þetta eru leikirnir sem mann dreymir um að spila'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Þór og Eiður Gauti = stóri og stóri.
Atli Þór og Eiður Gauti = stóri og stóri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ómar Ingi, þjálfari HK.
Ómar Ingi, þjálfari HK.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ekki skemmir fyrir að þetta er á Kópavogsvelli, okkar gamla heimavelli.'
'Ekki skemmir fyrir að þetta er á Kópavogsvelli, okkar gamla heimavelli.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Einhver dúddi úr 4. deildinni' skoraði sigurmark HK gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli í fyrra.
'Einhver dúddi úr 4. deildinni' skoraði sigurmark HK gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Klukkan 17:00 mætast Breiðablik og HK í Kópavogsslag. Breiðablik getur komist á toppinn og HK er að berjast við að sleppa við fall. Þessi nágrannaslagur er liður í 22. umferð deildarinnar, eftir þessa umferð skiptist deildin í tvo hluta og verða leiknar fimm umferðir í efri hluta og fimm í neðri hluta.

Til þess að hita upp fyrir leik þessara liða fannst fréttaritara tilvalið að ræða við leikmann sem man akkúrat ekki neitt eftir fyrri leik liðanna í sumar. Eiður Gauti Sæbjörnsson rotaðist strax í byrjun leiksins í Kórnum og var frá í talsverðan tíma þar sem sár í andliti þurfti að gróa og höfuðið að hvílast.

Lestu um leikinn: Breiðablik 5 -  3 HK

Eiður Gauti er 26 ára framherji sem uppalinn er hjá HK en hefur leikið með Ými síðustu ár. Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, hefur reynt að fá Eið aftur í HK en það þurfti nokkrar tilraunir til að fá Eið í að taka slaginn. Það tókst í vor þegar Eiður Gauti skipti aftur í uppeldisfélagið.

Hann ræddi við Fótbolta.net um leikinn, sumarið og HK.

Alvöru nágrannaslagur
„Það leggst gríðarlega vel í mig að fara spila á móti Breiðabliki. Þetta eru líklegast skemmtilegustu leikirnir á tímabilinu, HK - Breiðablik, og ekki skemmir fyrir að þetta er á Kópavogsvelli, okkar gamla heimavelli. Það eiginlega gerir þetta extra skemmtilegt og þetta er bara mjög spennandi."

„Þetta er alvöru nágrannaslagur. Er einhver stærri 'derby' slagur á Íslandi heldur en þessi? Þessi er allavega með þeim stærri. Það er mjög gaman að taka þátt í þessu. Núna áðan (á föstudagskvöld) var úrslitaleikur í 4. flokki upp í Kór, HK gegn Breiðabliki. Það var massa mæting og þvílíkt gert úr þeim leik. Þetta nær allavega alveg niður í 4. flokk."


Áttu einhverja félaga í þessu Blikaliði?

„Nei, reyndar ekki, þetta eru allt bara pjúra óvinir, ekki svona óvinir á velli og vinir eftir leik, heldur bara óvinir," segir Eiður Gauti á léttu nótunum.

„Eini sem ég þekki persónulega er þjálfarinn, Dóri er frændi minn."

Leikir sem mann dreymir um að spila
Þegar Ómar, þjálfarinn þinn, tók samtalið við þig í vor, kom hann eitthvað inn á þessa leiki þegar hann reyndi að selja þér að taka slaginn?

„Nei, ekkert sérstaklega, en ég gerði mér alveg grein fyrir því að það myndi koma að þessum leikjum. Það skemmdi ekkert fyrir að fara í Bestu deildina, koma í HK og spila þessa leiki. Þetta eru leikirnir sem mann dreymir um að spila."

Skiptir engu máli hvar liðin eru í töflunni
HK hefur unnið tvo af síðustu þremur leikjum sínum og liðið er ekki í fallsæti sem stendur.

„Við erum á smá skriði, við vorum reyndar ekkert sérstakir í síðasta leik þó að við náðum að vinna. Það er allavega smá að falla með okkur, loksins, en þegar maður fer í HK - Breiðablik leik þá mætir maður bara dýrvitlaus, það skiptir engu máli hvar liðin eru í töflunni. Þetta eru bara ellefu á móti ellefu og það getur allt gerst. Okkur hefur gengið vel í þessum leikjum, höfum náð að stríða þessum stóru liðum. Við erum bara vel stemmdir."

Endurkoman gekk nánast fullkomlega
Eiður Gauti hefur tekið þátt í síðustu fjórum leikjum og byrjað síðustu þrjá eftir að hafa misst af átta leikjum vegna meiðslanna.

„Endurkoman er eiginlega bara búin að vera nánast fullkomin, það kom smá bakslag, smá hausverkir þegar maður byrjaði að skalla boltann aftur. Það var alveg við því að búast. Form, takturinn við leikinn og leikform, það gekk furðu vel að ná því öllu aftur. Í dag líður mér bara eins og þetta hafi aldrei gerst, eða þannig, maður er búinn að skauta yfir þetta, kominn aftur í rútínu og allt komið í gang aftur. Það er bara áfram með smjörið."

Vildi ekki sjá eftir því að hafa ekki prófað
Þetta er fyrsta tímabil Eiðs Gauta í efstu deild. Hvernig var samtalið við Ómar í vor, hvernig endaði framherjinn aftur í HK?

„Þetta gerðist mjög hratt og var svolítið sérstakt. Hann í rauninni heyrir í mér akkúrat þegar ég er að fara erlendis. Ég er á leiðinni út á flugvöll og í viku frí með tengdó. Hann hafði tvisvar áður heyrt í mér, bæði síðasta sumar og í hitteðfyrra, tékkaði á mér. Ég var þá bara að sinna öðru og var ekki tilbúinn að taka skrefið. Ég veit ekki... það var eitthvað við þetta símtal. Ég hugsaði að þetta yrði líklega í síðasta skipti sem ég fengi þetta símtal, hugsaði að ef ég myndi ekki stökkva á þetta núna, þá myndi þetta aldrei gerast. Þetta er eitthvað sem maður vill ekki sjá eftir, að hafa ekki prufað."

„Til þessa þá hef ég viljað verja tíma mínum í annað. Það er massa vinna að vera í fótbolta. Það eru margir klukkutímar í viku; maður má ekki missa af æfingu og þarf að vera til staðar allt tímabilið. Maður getur ekki farið til útlanda eða gert eitt né neitt. Ég var bara í öðru; var í námi, í vinnu, spilaði golf og gat farið til útlanda eins og ég vildi."

„Þegar maður er í Ými þá spyrðu ekki um leyfi til að fá að fara út, þú bókar bara flug og lætur svo vita. Það er aðeins þægilegra."

„Þessi fótboltaferill er ekki langur, maður verður að prófa þetta. Ég get svo spilað golf þar til ég verð sjötugur, þannig ég sé ekkert eftir þessu,"
segir Eiður Gauti sem hóf að æfa með HK eftir ferðina erlendis..

„Bjóst ekki við að ná að smella svona í þetta"
Hefur Besta deildin komið þér á óvart?

„Það hefur aðeins komið mér á óvart hvernig mér hefur gengið að aðlagast. Ég var ekkert viss um að ég ætti roð í þetta þegar ég skipti yfir. Ég hugsaði bara að ég myndi prófa þetta, og svo ef þetta myndi ekki ganga upp þá væri ekkert mál að skipta aftur yfir í Ými. Þegar ég skipti yfir þá var ég ekki með það í huganum að 3-4 leikjum seinna yrði ég í byrjunarliðinu á móti Breiðabliki. Ég sá mig alltaf fyrir mér sem varaskeifa og myndi bara koma inn þegar þyrfti á mér að halda til að berjast og hjálpa liðinu eins og ég gæti."

„Ég bjóst ekki við því að ná að smella svona inn í þetta og það kom mér skemmtilega á óvart að ég átti meira roð í þetta en ég hélt."


Augnablik sem maður gleymir aldrei
Eiður Gauti sér ekki eftir tímanum sem hefur farið í fótboltann í sumar.

„Ég sé alls ekki eftir þessu, er mjög ánægður að hafa tekið þetta skref. Það skemmir ekkert fyrir að skora tvö, vinna KR og vera maður umferðarinnar og allt þetta. Þetta eru augnablik sem maður gleymir aldrei. Ég sé ekki eftir þessari ákvörðun."

Stóri og stóri
Atli Þór Jónasson og Eiður Gauti hafa leitt framlínu HK í síðustu leikjum. Þeir mættust í 4. deildinni fyrir tveimur árum þegar Hamar og Ýmir áttust við. Eiður Gauti var spurður út í Atla Þór.

„Ég man alveg eftir því að spila á móti honum, hann var langbestur í Hamri og öflugur. Þegar hann skipti yfir í HK þá hugsaði ég mig alveg um... einhver dúddi í 4. deild kominn í HK. Mér leið eins og ég væri á svipuðu getustigi og hann, og hugsaði þá að þetta væri kannski ekkert það langsótt (fyrir mig að taka skrefið í HK). Hann er náttúrulega aðeins yngri og að koma úr uppeldisklúbbnum, það er aðeins öðruvísi skref, heldur en að fara úr varaliðinu og vera fjórum árum eldri."

„Ég hef gaman af því að spila með honum frammi. Ég held að hafsentar í deildinni séu ekkert alltof spenntir að fá okkur tvo á sig. Ég heyrði einhvers staðar stóri og stóri [en ekki litli og stóri eins og algengara er]. Það er kannski bara ný þróun; að spila með tvo stóra frammi,"
segir Eiður Gauti að lokum.
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Víkingur R. 22 15 4 3 56 - 23 +33 49
2.    Breiðablik 22 15 4 3 53 - 28 +25 49
3.    Valur 22 11 5 6 53 - 33 +20 38
4.    ÍA 22 10 4 8 41 - 31 +10 34
5.    Stjarnan 22 10 4 8 40 - 35 +5 34
6.    FH 22 9 6 7 39 - 38 +1 33
7.    Fram 22 7 6 9 31 - 32 -1 27
8.    KA 22 7 6 9 32 - 38 -6 27
9.    KR 22 5 6 11 35 - 46 -11 21
10.    HK 22 6 2 14 26 - 56 -30 20
11.    Vestri 22 4 6 12 22 - 43 -21 18
12.    Fylkir 22 4 5 13 26 - 51 -25 17
Athugasemdir
banner
banner
banner