Breiðablik lagði Fjölni 2-1 á Kópavogsvelli í kvöld í 12.umferð Pepsí-deildar karla. Thomas Mikkelsen var að spila sinn fyrsta leik fyrir Breiðablik og skoraði strax eftir 14 mínútur. Thomas var að vonum ánægður með sigurinn þótt hann telji liðið geta spilað betur en í dag.
Lestu um leikinn: Breiðablik 2 - 1 Fjölnir
„Ég er fyrst og fremst mjög ánægður með sigurinn, mér fannst við geta spilað betur en í dag en allra mikilvægast er að liðið vann í dag og ég er ánægður."
Thomas skoraði í fyrsta leik sínum fyrir liðið og var hæstánægður með það en sagði að hann hefði verið búinn á því undir lokin og þyrfti smá tíma til að komast í hundrað prósent leikform.
„Þetta var góður fyrsti leikur fyrir mig en ég hef auðvitað ekki spilað leik í tvo og hálfan mánuð svo þetta var erfiður leikur fyrir mig en formið kemur þegar ég spila fleiri leiki. Ég var dauðþreyttur í lok leiks og ég gat ekki hlaupið meira."
Thomas líkar lífið vel hjá Blikunum eftir að hafa verið hér í þrjár vikur og hefur ekkert nema gott að segja um nýju liðsfélaga sína.
„Strákarnir eru frábærir, þeir hafa séð mjög vel um mig og mér líkar lífið hér virkilega vel."
Athugasemdir