Breiðablik og Víkingur R. unnu mikilvæga leiki í toppbaráttunni í Pepsi Max-deild karla í kvöld. KR-ingar halda þá í vonina eftir 1-0 sigur á HK.
Breiðablik vann ÍA 2-1 á Kópavogsvelli þar sem Árni Vilhjálmsson skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu þegar sjö mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Skagamenn komust yfir í leiknum eftir aðeins sex mínútur. Hákon Ingi Jónsson. Gísli Laxdal átti fyrirgjöf inn í teiginn, Ísak Snær Þorvaldsson ætlaði að taka við boltanum en móttakan var ekki nógu góð og barst boltinn til Hákons sem kláraði snyrtilega í markið.
Viktor Karl Einarsson jafnaði á 24. mínútu eftir góða sendingu frá Árna Vilhjálmssyni. Sá síðarnefndi komst í dauðafæri undir lok fyrri hálfleiksins en skaut framhjá fyrir opnu marki.
Eins og áður segir þá náðu Blikar inn sigurmarki á 83. mínútu er Óttar Bjarni Guðmundsson braut af sér innan teigs. Árni steig á punktinn og skoraði örugglega.
Fannar Berg Gunnólfsson, aðstoðarþjálfari ÍA, var rekinn upp í stúku í kjölfarið fyrir mótmæli. Nokkrum mínútum síðar var Wout Droste, leikmaður ÍA, rekinn af velli fyrir sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Stór sigur fyrir Blika sem eru í 3. sæti deildarinnar með 32 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Vals.
Víkingur R. er þá í öðru sæti eftir góðan 3-0 sigur á Fylki. Kristall Máni Ingason skoraði á níundu mínútu eftir sendingu frá Nikolaj Hansen.
Sölvi Geir Ottesen bjargaði á línu nokkrum mínútum síðar eftir að Guðmundur Steinn Hafsteinsson vippaði boltanum yfir Ingvar Jónsson í markinu. Þá kom Guðmundur sér í gott skallafæri stuttu síðar en náði ekki að stýra honum á markið.
Kristall Máni bætti við öðru marki í upphafi síðari hálfleiks eftir að Pablo Punyed fékk nægan tíma til að spóka sig um á miðjunni, senda boltann í gegnum varnarlínuna.
Kristall fékk tvö góð færi til að fullkomna þrennuna. Hann vippaði framhjá úr fyrra færinu og átti svo skot í slá en boltinn vildi ekki inn.
Kwame Quee gulltryggði sigur Víkinga á 85. mínútu. Logi Tómasson átti skot sem fór af varnarmanni Fylkis, að Kwame sem skoraði. Lokatölur 3-0 og Víkingur upp í 2. sæti deildarinnar með 33 stig, þremur stigum frá Val.
KR-ingar halda þá einnig lífi í þeirra vonum um að berjast um titilinn en liðið lagði HK í Kórnum, 1-0.
Ekki byrjaði það vel fyrir gestina. Arnþór Ingi Kristinsson fékk gult spjald strax á þriðju mínútu og aðeins átta mínútum síðar var hann farinn í sturtu.
Birnir Snær Ingason féll í jörðina eftir samskipti við Arnþór og var rekinn af velli. KR-ingar voru afar ósáttur við dómgæsluna og hópuðust að Elíasi Inga Árnasyni, dómara leiksins.
Það kom þó ekki í veg fyrir mark frá KR. Kjartan Henry Finnbogason gerði það á 25. mínútu. Stefán Árni Geirsson átti glæsilega vippu á Kjartan sem afgreiddi boltann í netið.
HK-ingar fengu vítaspyrnu á 37. mínútu er Grétar Snær Gunnarsson handlék knöttinn innan teigs. Birnir Snær steig á punktinn en þrumaði boltanum vel yfir markið.
Kristján Finnbogi Finnbogason, aðstoðarmaður Rúnars Kristinssonar, var rekinn upp í stúku áður en fyrri hálfleikurinn var úti. Mörg spjöld fóru á loft eftir að brotið var á Stefáni Ljubicic.
Undir lok leiksins fékk Ásgeir Marteinsson fínt færi til að jafna en skot hans fór í stöng. Lokatölur 1-0 fyrir KR sem er í 5. sæti með 29 stig en HK í 11. sæti með 13 stig.
HK 0 - 1 KR
0-1 Kjartan Henry Finnbogason ('25 )
0-1 Birnir Snær Ingason ('39 , misnotað víti)
Rautt spjald: ,Arnþór Ingi Kristinsson, KR ('11)Kristján Finnbogi Finnbogason , KR ('42) Lestu um leikinn
Breiðablik 2 - 1 ÍA
0-1 Hákon Ingi Jónsson ('6 )
1-1 Viktor Karl Einarsson ('24 )
2-1 Árni Vilhjálmsson ('86 )
Rautt spjald: ,Fannar Berg Gunnólfsson, ÍA ('83)Wout Droste, ÍA ('88) Lestu um leikinn
Fylkir 0 - 3 Víkingur R.
0-1 Kristall Máni Ingason ('9 )
0-2 Kristall Máni Ingason ('46 )
0-3 Kwame Quee ('85 )
Lestu um leikinn
Athugasemdir