
Landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir hefur verið ráðin í tímabundið starf hjá KSÍ.
Sambandið greindi frá þessu í gær en Gunnhildur mun sinna sérverkefnum sem tengjast meðal annars grasrótarmálum og samfélagslegum verkefnum.
„Það eru spennandi verkefni í sumar," sagði Gunnhildur í samtali við Fótbolta.net í gær þegar hún var spurð út í nýja starfið.
„Ég er í sumarfríi í hinni vinnunni minni og ég vil koma aðeins inn í samfélagið. KSÍ var opið fyrir því að taka á móti mér sem er frábært."
Gunnhildur kom heim í byrjun árs eftir farsælan feril erlendis. Frá því hún kom heim hefur hún verið að þjálfa börn með sérþarfir hjá Öspinni.
Landsliðskonan er ekki eini leikmaður Stjörnunnar sem starfar hjá KSÍ því Sóley Guðmundsdóttir starfar á Samskiptadeild sambandsins.
Athugasemdir