Vantaði bara herslumuninn
Það kom á óvart í síðustu viku þegar fréttir frá Svíþjóð bárust þess efnis að Srdjan Tufegdzic hefði látið af störfum hjá Skövde.
Túfa, eins og hann er alltaf kallaður, tók við sem þjálfari Skövde snemma á árinu en sneri til Íslands í sumarhléinu í Svíþjóð og í kjölfarið var tilkynnt að hann yrði ekki áfram hjá félaginu.
Túfa, eins og hann er alltaf kallaður, tók við sem þjálfari Skövde snemma á árinu en sneri til Íslands í sumarhléinu í Svíþjóð og í kjölfarið var tilkynnt að hann yrði ekki áfram hjá félaginu.
Fótbolti.net ræddi við Túfa í dag. Farið var yfir árin í Svíþjóð og ástæðu heimkomunnar.
„Ég er núna að horfa til baka og fara yfir síðustu ár," sagði Túfa.
„Heilt yfir var þetta frábært tækifæri, að fara og vera úti í tvö og hálft ár. Ég var í tvö ár hjá Öster sem er stórt félag í B-deildinni (Superettunni), með flotta umgjörð og allt í kring er eins og hjá félögum í efstu deild. Þar leið manni eins og alvöru atvinnumanni og heilt yfir var árangurinn mjög góður. Þetta voru tvö bestu ár Öster frá því að liðið féll úr efstu deild fyrir tíu árum. Heilt yfir var félaginu lyft á miklu hærra plan en hann var á þegar ég kom til félagsins. Það vantaði herslumuninn til að komast upp. Við töpuðum í umspili fyrra tímabilið. Það var mest svekkjandi á ári númer tvö að við bættum allt; vorum með fleiri stig og fleiri skoruð mörk. Leikmaður okkar varð markakóngur í deildinni eftir að hafa skorað mjög lítið þar á undan. Herslumunur er mikill munur, því að það væri allt annað dæmi að hafa komið Öster upp úr Superettunni eftir tíu ár þar. Það hefði verið risastórt fyrir mann sem kom frá Íslandi til að þjálfa í Svíþjóð."
„Þetta er krefjandi. Íslenskir þjálfarar sem hafa farið út vita hversu erfitt þetta er. Maður þekkir ekki deildina og hver leikur er ný áskorun. Við enduðum með 54 stig í fyrra sem var í fjórða sinn í sögunni sem Öster nær yfir 50 stig. Í öll hin skiptin fór liðið upp um deild. Þetta situr aðeins í manni."
Mjög krefjandi verkefni
Samningur Túfa við Öster rann út eftir annað tímabilið og fékk hann ekki framlengingu á samningi sínum.
„Það voru einhverjar þreifingar en þetta verður að vera svolítið 'domino effect', kapall sem þarf að ganga upp. Þetta er ekki auðvelt. Það er mikil samkeppni um störf, fullt af þjálfurum, fullt af fyrrum leikmönnum sem vilja reyna fyrir sér. Það sem ég vildi að myndi gerast var ekki að ganga upp og ég var á leiðinni heim til Íslands, var kominn heim um áramótin. Á Íslandi var búið að ráða í öll störf, í raun allt klárt þegar ennþá voru 5-6 leikir eftir í Svíþjóð og við vorum þá í bullandi baráttu."
„Eftir áramót kom símtal frá Skövde. Það er frekar lítið félag og með eitt minnsta fjármagnið í deildinni. Þetta félag er vanara því að vera í þriðju efstu deild heldur en í Superettunni. Ég var alveg fram og til baka með það hvort ég ætti að taka það verkefni, því ég vissi að það yrði mjög krefjandi. Skövde bjargaði sér í síðasta leik á síðasta tímabili, voru á botninum lengi vel. Það fóru margir leikmenn, einungis 4-5 leikmenn eftir. Eftir að hafa rætt við fjölskylduna ákvað ég að kýla á þetta, skora á sjálfan mig, frekar en að vera heima á Íslandi og gera ekki neitt."
„Í hreinskilni var þetta mjög krefjandi. Við þurftum að sækja u.þ.b. 15 leikmenn til að búa til lið sem gæti spilað í þessari deild. Fjármagnið var mjög takmarkað og vinnan við að púsla liðinu saman var mjög mikil. Langflestir leikmenn sem við náðum í höfðu ekki spilað í deildinni. Við fengum líka lánsmenn frá úrvalsdeildarfélögum rétt fyrir mót til að vera samkeppnishæfir. Þarna er gott fólk og menn stóðu saman."
Fann að þetta var komið gott
Mikill munur er á Öster, sem er félag sem ætlar sér upp í efstu deild, og Skövde sem er sátt við það að halda sæti sínu í deildinni. Allir spáðu Skövde falli úr deildinni, trúin á liðinu fyrir mót var ekki mikil.
„Það var mikill munur á þessum tveimur félögum. Skövde var meira líkt íslensku félagi, menn voru í vinnu með fótboltanum og svoleiðis. Við náðum að púsla þessu saman með mikilli vinnu hjá öllum. Við byrjuðum tímabilið vel og unnum nokkra óvænta sigra. VIð unnum Helsingborg úti, Örebro úti og Östersund heima. Þetta eru félög sem fyrir 2-3 árum voru í efstu deild. Núna í lokin, fyrir sumarfrí, þá töpuðum við síðustu þremur leikjunum. Við misstum leikmenn í meiðsli. Heilt yfir er ekki slæmt að vera með 15 stig, liðið var held ég með 7 stig á sama tíma í fyrra. Það er búið að byggja upp góðan grunn fyrir framhaldið, og sérstaklega fyrir næsta ár ef liðið nær að halda sér uppi."
„Ég fann sjálfur að þetta var svolítið erfitt, fann það líka hjá Öster, fjölskyldan hefur verið á Íslandi. Ég fann að þetta væri komið gott. Það er hlé á deildinni og ég ræddi við formanninn. Stjórnin vildi ekki missa mig, menn voru mjög ánægðir með þessa mánuði saman, en ég útskýrði að ég þekkti sjálfan mig best og fannst heiðarlegast að stíga til hliðar. Ég hugsaði að þetta væri tækifæri fyrir þá til að gera breytingu þar sem hlé er á deildinni. Ég fann að þetta var komið gott og ég var ákveðinn í því að koma heim."
Maður þekkir sjálfan sig best
Var eitthvað eitt frekar en annað í lokin sem hafði úrslitaáhrif á ákvörðun Túfa?
„Nei. Ég var búinn að hugsa þetta á tíma mínum í Svíþjóð. Þetta hefur ekki verið auðvelt. Strákarnir mínir eru 12 og 14 ára, þeir hafa staðið sig eins og hetjur með mömmu sinni hér á Íslandi. Þetta er uppsafnað, maður þekkir sjálfan sig best. Þegar ég er ekki 150% klár í verkið þá er þetta ekkert sniðugt. Mér fannst vera komið að endapunkti og fjölskyldan var aðalástæðan fyrir því að mig langaði að fara aftur til Íslands," sagði Túfa sem sagði að það hefðu fleiri litlir hlutir spilað inn í en hann vildi ekki fara út í hvað það væri.
Svekkjandi að fá ekki þriðja tímabilið
Túfa er 44 ára. Hann kom til Akureyrar frá Serbíu og spilaði með KA áður en hann fór svo út í þjálfun. Hann var spurður út í viðskilnaðinn við Öster.
„Samningurinn var búinn. Við vorum í hörkubaráttu um að komast upp í efstu deild. Á endanum vorum við með þremur stigum minna en lið sem fór beint upp," sagði Túfa en á milli þeirra liða var 3. sætið sem fór í umspil.
„Það réðst alveg í síðustu leikjunum. Eftir tímabilið settumst við niður, samningurinn var að renna út. Þegar ég kom út var markmiðið að koma liðinu upp á næstu þremur árum, en það allavega hafðist ekki á tímabili tvö. Mér fannst þetta allt á uppleið."
„Það sem kannski ekki hjálpaði mér ekki var að við vorum búnir að búa til lið sem átti að okkar mati að geta spilað í efstu deild, það var alveg nógu gott til þess. Við gerðum mikið af breytingum eftir að ég kom. Á seinni hluta síðasta tímabils fann ég að þetta væri lið sem var nógu gott til að fara upp. Það er að hjálpa þeim núna. Ég var svekktur að fá ekki þriðja árið til að klára þetta."
„Það voru miklar bætingar í öllu á þessum tveimur árum. Þegar ég kom voru svona 1500 manns að koma á vellina en það var komið upp í 3500 að meðaltali, stöku leikir sem fóru upp í alveg 10 þúsund áhorfendur. Það var mikil stemning í kringum klúbbinn, margt jákvætt, nema þetta litla sem er samt svo stórt; að koma liðinu upp."
„Á tíma mínum átti Öster tvær stærstu sölur í sögu félagsins. Fyrri salan var á Rúnari Þór sem við fengum frá Keflavík og seldum hálfu ári seinna til Willem II í Hollandi. Seinni salan var svo Adam Herdonsson sem fékk sín fyrstu tækifæri í meistaraflokki undir minni stjórn og fór til Horsens. Markakóngurinn, Jesper Westermark, sem var eitthvað orðaður við Breiðablik í vetur, þegar ég kom inn þá vildu margir að hann færi, hann var ekki búinn að skora mikið. Á fyrra árinu skoraði hann níu mörk og svo sautján í fyrra. Hann var svo fenginn til Wisla Plock í Póllandi."
„Það sem vantaði var lokastimpillinn, að koma liðinu upp í Allsvenskan. Stundum er þetta svona í fótboltanum. Núna er maður aðeins að grafa og skoða hvað maður gerði vitlaust til að vera betur undirbúinn þegar næsta verkefni kemur. Þetta var frábær reynsla og ég lærði mikið af þessu."
Orðaður við FH
Túfa var orðaður við endurkomu til Íslands í vetur. Hann var orðaður við aðstoðarþjálfarastöðuna hjá FH en hann og Heimir Guðjónsson unnu saman hjá Val.
„Það var ekki í myndinni að koma til Íslands. Allar þjálfarabreytingar voru búnar þegar tímabilinu mínu var ekki lokið og ég hafði alltaf trú á því að ég myndi klára dæmið með Öster. Ef við hefðum farið upp þá væri ég örugglega þar ennþá. Það voru jú einhverjir sem tékkuðu hvort ég væri á leiðinni heim, en það var ekkert í myndinni hjá mér. Það voru líka félög úti sem ég var nálægt því að semja við, en gekk ekki alveg eftir. Símtalið frá Skövde kom svo fljótlega eftir að ég kom heim í kringum áramótin."
Vonast til að fá símtal
Hvað langar þig að gera næst?
„Núna er ég að verja eins miklum tíma og ég get með strákunum mínum og fjölskyldu. En ég er þjálfari og elska vinnuna meira en allt fyrir utan fjölskylduna. Ég vona að það komi eitthvað símtal einhvers staðar frá. Ef það verður erlendis frá þá þarf það að vera spennandi svo ég fari aftur út. Í þessum bransa er erfitt að flytja mikið með fjölskylduna, sérstaklega þegar börnin er á þessum aldri. Þegar ég fékk tilboð frá Skövde sögðu þeir báðir strax að þeir ætluðu ekki að flytja með út. Ég er að sjálfsögðu opinn ef það kemur eitthvað spennandi, fljótur að pakka ofan í tösku. Ég skynja það að orðsporið í Svíþjóð er gott, gerði góða hluti. En ég er líka spenntur og vona að það komi eitthvað hér á Íslandi. Í þessu starfi planar þú ekki eitt eða neitt, ég er opinn fyrri öllu og ég ætla halda áfram að þjálfa, það er engin spurning," sagði Túfa.
„KA er alltaf minn klúbbur"
Ertu að fylgjast vel með boltanum á Íslandi?
„Ég hef fylgst með, það hjálpaði úti að leikirnir voru þar klukkan 21 því það er tveggja tíma munur. Þá var maður kominn í ró og gat horft á íslenska boltann. Ég horfði ekkert á alla leiki en fylgdist með. Ég er með mín lið, KA er alltaf minn klúbbur, átti frábæran tíma hjá Val og ég fylgist með því sem Heimir er að gera með FH. Núna er ég kominn heim, mun pottþétt kíkja eitthvað á völlinn og er spenntur að fylgjast með deildinni."
Frábært að hafa fengið tækifærið
Túfa dró þetta svo allt saman í lok viðtalsins.
„Það er frábært að hafa fengið þetta tækifæri að vera svona lengi úti. Það er ekki auðvelt að komast út og alls ekki auðvelt að halda sér þar. Þetta er allt önnur reynsla en hér heima og það er bara kostur að hafa gert þetta þegar ég horfi á framhaldið. Maður er alltaf að læra og ég vil gera betur í næsta starfi. Ég er að undirbúa mig fyrir það akkúrat núna, og nýti tímann með fjölskyldunni vel," sagði Túfa að lokum.
Athugasemdir