Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 17. nóvember 2015 21:37
Alexander Freyr Tamimi
Vináttuleikur: „Copy/Paste“ í Slóvakíu
LG
Borgun
Alfreð skoraði mark Íslands.
Alfreð skoraði mark Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Slóvakía 3 - 1 Ísland
0-1 Alfreð Finnbogason ('8)
1-1 Robert Mak ('58)
2-1 Robert Mak ('61)
3-1 Michal Duris ('84)

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu þurfti að sætta sig við afar súrt 3-1 tap gegn Slóvakíu í vináttuleik sem fram fór í Zilina í kvöld. Líkt og í 4-2 tapinu gegn Póllandi á dögunum byrjuðu Íslendingar vel og leiddu 1-0 í hálfleik en seinni hálfleikurinn varð liðinu að falli.

Alfreð Finnbogason kom strákunum okkar í 1-0 á 8. mínútu með glæsilegu marki. Hann fékk þá frábæra sendingu frá Kolbeini Sigþórssyni, sneri vel á varnarmenn heimamanna og afgreiddi af stakri prýði í netið. Mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik.

Ísland byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og virtist ekki ætla að endurtaka leikinn frá Varsjá á föstudag. Liðið fékk tvö frábær færi til að tvöfalda forystu sína, í því fyrra kom Alfreð Finnbogason knettinum í netið eftir glæsilega sókn en var réttilega flaggaður rangstæður þó ekki hafi munað miklu.

Skömmu síðar komst Kolbeinn Sigþórsson í algert dauðafæri en hitti ekki boltann, sem sigldi framhjá. Jón Daði Böðvarsson náði boltanum og lét vaða en markvörður Slóvakíu varði.

Í kjölfarið fylgdi síðan martraðarkafli sem kostaði Ísland sigurinn. Á 58. mínútu átti sér stað skelfilegur misskilningur hjá Ögmundi Kristinssyni markverði og varnarmanninum Sverri Inga Ingasyni, sem varð til þess að leikmaður Slóvakíu náði boltanum og gaf á Robert Mak sem skoraði af öryggi í autt netið.

Örfáum mínútum síðar átti Robert Mak síðan skot af löngu færi, boltinn breytti um stefnu af Sverri Inga og endaði í netinu.

Heimamenn fengu byr í seglin eftir þennan frábæra kafla. Lítið var um færi hjá íslenska landsliðinu sem virtist slegið eftir þessar vonbrigðamínútur. Michal Duris bætti svo við þriðja marki Slóvaka á 84. mínútu eftir skelfilega hreinsun frá Sverri Inga. Lokatölur 3-1 Slóvakíu í vil og annað tap Íslands á innan við viku staðreynd.

Nokkrir minna reyndir leikmenn fengu að spreyta sig í landsliðstreyjunni. Auk Sverris Inga fengu þeir Haukur Heiðar Hauksson og Arnór Ingvi Traustason tækifærið í byrjunarliðinu. Arnór Ingvi þurfti að fara snemma af velli meiddur en Haukur Heiðar skilaði sínu frábærlega. Rúnar Már Sigurjónsson var einnig í byrjunarliðinu en fór snemma af velli meiddur fyrir Theodór Elmar Bjarnason.

Þá kom Oliver Sigurjónsson inn á í sínum fyrsta landsleik þegar um tíu mínútur voru eftir.
Athugasemdir
banner
banner
banner