Glasner efstur á blaði hjá Man Utd - Rashford fær endurkomuleið á Old Trafford - Juventus ræðir við Liverpool um Chiesa
   mán 05. janúar 2026 16:12
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Genoa vill fá besta leikmann Íslandsmótsins
Kvenaboltinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ítalska félagið Genoa hefur sett sig í samband við Breiðablik varðandi möguleikann á því að fá Birtu Georgsdóttur í sínar raðir. Þetta staðfestir Eyjólfur Héðinsson, deildarstjóri meistaraflokka Breiðabliks, við Fótbolta.net.

Birta var besti leikmaður Íslandsmótsins í sumar og gæti verið á leið til Ítalíu. Birta er 23 ára sóknarmaður sem hefur spilað 29 leiki íslensku landsliðstreyjunni, þar af eru fjórir með U23 landsliðinu og var einn þeirra skráður A-landsleikur.

„Hún átti magnað sumar þar sem hún kom með beinum hætti að 25 mörkum. Hennar langbesta tímabil á ferlinum. Hún átti líka stærsta augnablik tímabilsins fyrir Breiðablik þegar hún skoraði tvö mörk í uppbótartíma gegn FH, í leik sem skipti gríðarlega miklu máli í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Birta er svo sannarlega vel að þessu komin," sagði í vali Fótbolta.net á leikmanni ársins.

Birta er uppalin í Stjörnunni og hefur einnig leikið með FH á ferlinum. Hún kom í Smárann eftir tímabilið 2020. Hún er samningsbundin Breiðabliki út næsta tímabil.

Genoa er í næstneðsta sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar eftir tæplega hálft mót, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti. Rúmlega tvö ár eru frá því að Breiðablik seldi síðast leikmann til Genoa en þá fór Ágúst Orri Þorsteinsson til ítalska félagsins. Kærasti Birtu, landsliðsmaðurinn Mikael Egill Ellertsson, er leikmaður Genoa.

Birta er ekki eini leikmaðurinn sem Íslands- og bikarmeistararnir gætu verið að missa því miklar líkur eru á því að Andrea Rut Bjarnadóttir fari til Anderlecht í Belgíu.
Athugasemdir
banner