PSG og Barcelona vilja Duran - Bayern vill Gyökeres - Juve vill Zirkzee og til í að láta Man Utd fá Vlahovic
   mán 18. mars 2024 10:22
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Unnið lengi að því að fá Gylfa - „Ekki að koma hingað til að hætta"
Gylfi Þór Sigurðsson og Arnar Grétarsson.
Gylfi Þór Sigurðsson og Arnar Grétarsson.
Mynd: Styrmir Þór Bragason
Gylfi gerði tveggja ára samning við Valsmenn.
Gylfi gerði tveggja ára samning við Valsmenn.
Mynd: Styrmir Þór Bragason
Gylfi er einn besti fótboltamaður sem hefur komið frá Íslandi.
Gylfi er einn besti fótboltamaður sem hefur komið frá Íslandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi á landsliðsæfingu.
Gylfi á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur fagnar marki.
Valur fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Arnar Grétarsson, þjálfari Vals.
Arnar Grétarsson, þjálfari Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það verður spennandi að fylgjast með Gylfa í Val.
Það verður spennandi að fylgjast með Gylfa í Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi er markahæsti leikmaður í sögu landsliðsins.
Gylfi er markahæsti leikmaður í sögu landsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er hrikalega ánægður fyrir hönd allra Valsmanna," segir Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, í samtali við Fótbolta.net. Fyrir liðna helgi staðfesti Valur þau risastóru tíðindi að Gylfi Þór Sigurðsson væri búinn að semja við félagið.

Gylfi, sem er markahæsti leikmaður í sögu landsliðsins, skrifar undir tveggja ára samning á Hlíðarenda.

Þessi skipti hafa átt sér langan aðdraganda en Gylfi æfði með Val á síðasta ári og hafði Hlíðarendafélagið þá vonast til að semja við hann. Gylfi ákvað að reyna fyrir sér í Danmörku en sá núna besta kostinn í því að koma heim.

„Þetta er búið að hafa langan aðdraganda. Það byrjaði fyrir tímabilið í fyrra þar sem við vorum að reyna að landa honum. Það er vitað hvernig það fór, hann fór út og reyndi fyrir sér þar. Svo kemur þetta aftur upp núna og við förum aftur af stað. Þetta tekur smá tíma sem er eðlilegt með svona prófíl," segir Arnar og bætir við:

„Þetta er hrikalega vel gert hjá öllum sem komu að þessu; vinnubrögðin hjá stjórnarmönnum, framkvæmdastjóra og öllum sem komu að þessu voru mjög fagleg. Það gerði okkur kleift að ná að láta þetta ganga upp. Það hefur farið smá tími í að ganga frá þessu en það er þeim mun meiri léttir fyrir alla að þetta sé komið í höfn."

Á allt öðrum stað
Gylfi hefur ekki spilað fótbolta síðan í nóvember síðastliðnum. Hann sneri aftur á fótboltavöllinn síðasta sumar eftir tveggja ára fjarveru og hafa meiðsli aðeins verið að stríða honum frá því hann kom til baka. Arnar segir að Gylfi sé á betri stað núna en þegar hann æfði með Val á síðasta ári.

„Hann er á allt öðrum stað en þegar hann æfði með okkur síðast. Hann er kominn miklu lengra í sínu ferli," segir Arnar.

„Hann er búinn að taka fullt af æfingum með okkur núna en er kannski ekki alveg tilbúinn að taka fimm eða sex æfingar í röð. Hann lítur mjög vel út og ég held að það sé ekki langt í að við getum séð hann í leik að einhverju leyti. Hann er kominn það langt. Við þurfum á sama tíma að passa upp á að hann komist í gegnum hlutina og komist í enn betra stand. Það hefur verið hans einkenni í gegnum tíðina að vera í toppstandi og hlaupa mikið. Hann verður kominn þangað innan nokkurra vikna. Ég á ekki von á öðru, annað myndi koma mér á óvart."

Arnar segir að Gylfi hafi verið að koma mjög vel inn í hópinn hjá Val og sé að hafa góð áhrif á liðsfélaga sína.

„Þessi strákur er frábær fótboltamaður og kemur með ákveðin vinnubrögð inn sama hvert hann fer. Hann er þannig gerður að hann leggur mikið á sig og er mikil fyrirmynd. Það vilja allir fá svoleiðis gæja inn. Það skemmir ekki hvað hann er góður í fótbolta en hann lyftir líka öllu upp og gerir aðra leikmenn betri. Menn stíga upp í kringum hann."

„Hann hefur komið hrikalega vel inn hjá okkur og passar vel inn í þennan hóp. Hann er búinn að spila með ansi mörgum leikmönnum sem eru í þessu liði, bæði í A-landsliðinu og svo í yngri landsliðum líka. Hann þekkir ansi marga og smellpassar inn í hópinn. Hann hefur komið gríðarlega vel inn en mér fannst leikmennirnir vera hrikalega spenntir að fá hann inn."

Arnar er viss um að Gylfi muni spila í fyrstu umferð Bestu deildarinnar í byrjun apríl, nema eitthvað komi upp. Hann er kominn með leikheimild og getur spilað sinn fyrsta leik fyrir Val gegn ÍA í Lengjubikarnum á miðvikudaginn. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net mun Gylfi spila gegn ÍA.

„Ég er nokkuð viss um að hann taki þátt að einhverju leyti þá, alveg 100 prósent," sagði Arnar spurður að því hvort Gylfi muni spila í fyrstu umferð Bestu deildarinnar. „Við eigum leik núna á miðvikudaginn og vonandi getum við komið okkur áfram í úrslit á móti Breiðabliki. Það væri kærkomið að fá leik á móti Breiðablik og svo annan leik í Meistarakeppni KSÍ á móti Víkingi. Alvöru leikir. Við byrjum á móti Skaganum á miðvikudaginn og þá sjáum við hverjir eru klárir. Hann er kominn með leikheimild og það er jákvætt. Við skoðum það."

Eigi eftir að spila með landsliðinu
Það myndaðist mikil umræða fyrir helgi eftir að það kom í ljós að Gylfi væri ekki í landsliðinu sem myndi taka þátt í umspilinu fyrir Evrópumótið.

„Ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu því ég hef ekki verið að fylgjast með öðrum leikmönnum og ég veit ekki á hvaða stað þeir eru," segir Arnar en hann hefur trú á því að Gylfi muni spila aftur með landsliðinu.

„Það sem ég get sagt er þegar Gylfi Sigurðsson er í standi, þá hefur íslenska landsliðið not fyrir hann. Það er alveg klárt. Það sem ég hef séð á æfingum, þá gæti hann klárlega hjálpað landsliðinu. Núna er hann kominn með félag og byrjaður að æfa. Það kæmi mér ekki á óvart ef hann verður kominn aftur í landsliðið fyrr frekar en seinna."

„Hann getur fljótlega farið að láta að sér kveða, jafnvel þó það sé í minna hlutverki. Gylfi er ekki alveg í 100 prósent standi en hann er í æfingastandi. Það sem Gylfi getur gert í fótbolta, það hefur ekkert breyst. Það er mikill drifkraftur í honum og hann er ekki að koma hingað til að hætta. Hann ætlar að gera alvöru hluti. Ef þú ert landsliðsþjálfari, þá viltu það. Þú vilt menn með drifkraft sem vilja ná árangri. Ég held að hann eigi enn inni svolítið af landsleikjum. Ég ætla að leyfa mér að trúa því."

Undirstrikar hvað Valur hefur verið að gera
Að fá Gylfa er risastórt fyrir Val. Félagið hafði betur í baráttunni við Víking og KR um þennan frábæra leikmann en þetta er vinna sem hefur verið lengi í gangi á Hlíðarenda. Arnar segir að þessi samningur undirstriki þann metnað sem er í gangi á Hlíðarenda.

„Það undirstrikar það hvað Valur hefur verið að gera; hvað stjórnin í fótboltanum með Börk í forystu hefur verið að gera, nýi framkvæmdastjórinn, Styrmir, og með Óla Jó líka. Hann (Óli Jó) spilaði stóra rullu í þessu þar sem hann þekkir pabba Gylfa vel. Ég hef verið í miklu sambandi við hann varðandi leikmannamál og annað. Metnaðurinn í félaginu er mikill," segir Arnar.

„Ef við horfum á fótboltann, handboltann og körfuboltann þá er verið að gera frábæra hlutir alls staðar. Þetta lýsir metnaðinum í félaginu. Þetta er ekki eitthvað sem gerist á einum degi eða einu ári, þetta tekur tíma - að byggja upp svona sigurhefð. Það þarf að vera ábyrgur rekstur á bak við þessa hluti. Þetta er mikil viðurkenning fyrir alla í kringum félagið."

En setur þetta meiri pressu á Val í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í sumar?

„Já, eflaust. Ég held nú samt að áður en Gylfi kom, að þá er Valur líka þarna uppi. Víkingur er með frábært lið og önnur lið líka. Mesta umræðan hefur verið um Víking og Val. Það er ekkert launungarmál að stefnan hjá Val er að vinna alla titla. Við spiluðum vel í fyrra en vorum klaufar. Við hefðum getað gert þetta miklu meira spennandi. En það gefur augaleið að þegar þú færð svona prófíl inn að þá gera menn sjálfvirkt meiri kröfur."

„Það er alveg klárt hvað við viljum gera en með tilkomu svona leikmanns og með hópinn sem við erum með, þá ætti það að gefa okkur meiri líkur á að ná þeim markmiðum sem við viljum. Það er bara frábært. En þegar þú ert í félagi eins og Val, þá eru kröfunar miklar. Þeir sem koma hingað inn, þeir eiga að vita það," segir Arnar.

„Ég held að allir hafi viljað fá Gylfa í sitt lið en hann fer bara í eitt lið. Hann velur Val sem er frábært fyrir okkur en fyrir deildina er þetta líka stórkostlegt. Að fá svona prófíl inn í deildina gerir fólk spenntara. Það er af hinu góða. Ég held að það sé tíu- eða tólfföldun á sölu ársmiða hjá Val miðað við í fyrra. Það er strax kominn mikill spenningur í Valsmenn sem er frábært."

Það er frábært fyrir Val að Gylfi sé kominn en það virðist vanta djúpan miðjumann í liðið. Arnar segir þó að Valsmenn séu ekki örvæntingafullir. Hann er ánægður með hópinn og spenntur fyrir tímabilinu sem framundan er.

„Ég ætla nú bara að segja eins og Börkur: Þetta er bara opið og maður veit aldrei hvernig hlutirnir þróast í þessu. Við höfum sagt að við erum að skoða en það er ógeðslega erfitt að finna leikmenn. Við viljum taka inn leikmenn nema þeir séu betri en þeir leikmenn sem við erum með. Við erum bara með ansi góða leikmenn. Að finna leikmann á því kalíberi sem við viljum, það er ekki auðvelt. Að því sögðu erum við ekki að loka á neitt en við erum ekki örvæntingafullir," sagði Arnar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner