Man City leiðir baráttuna um Gibbs-White - Chelsea hefur áhuga á Gyökeres - Watkins til Liverpool?
   fös 18. apríl 2025 23:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sterkust í 1. umferð - Alltof góð fyrir íslenska boltann?
Samantha Smith.
Samantha Smith.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varð Íslandsmeistari í fyrra.
Varð Íslandsmeistari í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samantha Smith gerði fyrsta mark ársins í Bestu deild kvenna og er hún sterkasti leikmaður 1. umferðar deildarinnar í boði Steypustöðvarinnar.

Samantha átti enn einn stórleikinn fyrir Breiðablik er liðið vann 6-1 sigur á nágrönnum sínum í Stjörnunni á Kópavogsvelli þegar deildin fór af stað.

„Samantha slekkur eiginlega strax í partýinu hjá Stjörnunni en hún setti tvö á fyrsta kortinu og það skapaðist alltaf hætta þegar hún fékk boltann," sagði Anton Freyr Jónsson í skýrslu sinni frá Kópavogsvellinum. Hann vekur svo upp spurninguna:

„Alltof góð fyrir Íslenska boltann?"

Það er góð spurning. Samantha kom eins og stormsveipur inn í íslenska boltann síðasta sumar. Hún lék fyrri hlutann með FHL og það dugði henni til að vera leikmaður ársins í Lengjudeildinni. Hún skipti yfir í Breiðablik um mitt sumar og það gekk nánast allt upp hjá Blikum eftir það. Hún átti risastóran þátt í því að titillinn stóri kom í Kópavog.

„Það er ótrúlegt að Sammy sé enn á Íslandi," sagði Rósey Björgvinsdóttir, fyrirliði FHL, í Niðurtalningunni hér á Fótbolta.net fyrir mót og það eru fleiri leikmenn í Bestu deildinni sem eru á þessari skoðun. Leikmenn telja það að hún verði best í deildinni í sumar.

En undirritaður vonar að hún spili sem lengst á Íslandi. Hún er leikmaður sem litar þessa deild með gæðum sínum og vonandi spilar hún bara það lengi að hún fái íslenskan ríkisborgararétt. Því Samantha Smith í íslenska landsliðinu væri algjör draumur í dós. Hún er stórkostlegur leikmaður, það eitt er víst.
Athugasemdir
banner