Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   lau 18. júní 2022 16:33
Brynjar Ingi Erluson
Hannes Þór: Ég ætla ekki að hafa þetta dramatískt
Hannes og Kári handsala félagaskiptin
Hannes og Kári handsala félagaskiptin
Mynd: Víkingur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes Þór Halldórsson gekk í raðir Íslands- og bikarmeistara Víkings á föstudaginn en hann verður til taks ef eitthvað bjátar á hjá Víkingum. Hannes ræddi um félagaskiptin í útvarpsþættinum Fótbolti.net í dag.

Hannes lagði hanskana á hilluna í mars eftir farsælan feril en það er óumdeilanlegt að hann er besti markvörður sem Ísland hefur átt.

Hann stóð í markinu á Evrópumótinu árið 2016 er Ísland komst í 8-liða úrslit og var einnig í markinu á HM fyrir fjórum árum.

Þessum fyrrum landsliðsmarkvörður var látinn fara frá Val eftir síðasta tímabil og ákvað hann svo að leggja hanskana alfarið á hilluna í mars.

Það var því heldur óvænt er hann gekk í raðir Víkings fyrir helgi en hann verður til taks ef eitthvað óvænt kemur upp. Ingvar Jónsson er handarbrotinn og þá er Uggi Auðunsson, markvörður 2. flokks, fótbrotinn.

Hannes og Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi, kláruðu félagaskiptin á Spáni en þeir voru á leið í brúðkaup hjá Jóhanni Berg Guðmundssyni.

„Já, ég er búinn að vera duglegur í ræktinni síðan að ég hætti eða síðan ég fór á mína síðustu fótboltaæfingu. Það hefur ekkert vantað," sagði Hannes í útvarpsþættinum í dag.

„Kári hringdi í mig bara nánast á leiðinni út á flugvöll. Hann sagði mér að Ingvar væri handarbrotinn og Víkingur væri á leið í Evrópukeppni og þetta stæði rosalega tæpt hjá þeim. Hann kannaði hug minn á því hvort ég hefði áhuga á að joina með einhverjum hætti og ég bað hann um að fá að hugsa þetta aðeins," sagði hann ennfremur.

Er ekki í Meistaradeildarhópnum

Hannes verður ekki í Meistaradeildarhópnum hjá Víkingi gegn Levadia en félagið gat ekki skráð hann í tæka tíð. Víkingur þurfti að skila listanum til UEFA fyrir ákveðin tíma og það fór því ekki í gegn, svo best sem Hannes veit að minnsta kosti.

„Við ræddum þetta áfram á sundlaugarbakkanum og það var tímapressa á þessu því það þarf að senda inn leikmannahópa til UEFA fyrir einhvern ákveðin tíma en mér skilst að það hafi ekki gengið í gegn og það var svolítið ástæðan fyrir því að það þyrfti að drífa þetta af. Við ákváðum á endanum af því þetta var svolítið stór ákvörðun að við ákváðum að keyra þetta í gegn."

„Ég held ekki. Held að það hafi eitthvað klikkað þar. Ég á eftir að heyra betur í þeim niður frá hvernig staðan er á því, en ég held að það hafi ekki skilað sér inn í tæka tíð fyrir það."

„Ég ætla ekki að hafa þetta dramatískt. Þetta eru bara félagaskipti og er félaginu til taks. Ég skil að það er óþægilegt að fara inn í törn eins og liðið er að fara í núna án þess að vera með vaðið fyrir neðan sig og með einn markmann er virkilega óþægilegt. Ég ákvað að samþykkja það að ganga frá þessum félagaskiptum og er hérna í næsta húsi ef eitthvað klikkar. Þeir geta kallað í mig af Víkingsvellinum ef einhver meiðir sig. Ég er bara meira til taks, það er svolítið þannig,"
sagði Hannes.

Hannes mun ekki mæta á æfingar hjá Víkingi á hverjum degi en mun þó mæta á æfingar til að halda sér við.

„Nei, ef eitthvað bjátar á og kemur upp þá fer ég all-in í þetta, en þangað til er ég áfram í sama pakka og ég er í núna. Ég kíki kannski á einhverjar æfingar en það er ekki kominn samningur."

„Við eigum eftir að setjast niður og útfæra þetta betur. Menn hafa möguleika á að heyra í mér ef Doddi endar á að fá rautt spjald einhverstaðar eða þannig krísa í gangi, þá geta þeir heyrt í mér hljóðið. Það þurfti að koma þessu formsatriði frá og er kominn í sama félag og börnin mín. Það var margt sem mér fannst skemmtilegt við það að verða aðeins tengdari félaginu og svona, það er margt jákvætt um það að segja og leist vel á að hjálpa til."


En er hann klár í að spila í Bestu deildinni á þessari stundu?

„Það þyrfti að koma í ljós. Ég held að Arnar og allir vonist til þess að Doddi haldist heill og það þurfi ekki að koma til þess að ég þyrfti að stíga inn. Það er ekkert kjöraðstaða að mæta ekki á fótboltaæfingu í hálft ár og mæta síðan inn og spila leik, en ef það þyrfti að gerast þá er alveg hægt að díla við það. Ég er búinn að halda mér fit og allt svoleiðis og hef reynslu af því þegar ég fór til Bodö/Glimt á sínum tíma þá hafði ég verið í meiðslum í nokkra mánuði og fara á örfáar æfingar þegar ég stóð í markinu í fyrsta leik í deildinni. Þetta er hægt en ekki kjöraðstæður þannig vonandi hangir Doddi í standi og þetta er bara af varrúðarráðstöfunum sem þarf ekki að nýta."

„Þeir eru með ungan markmann sem stendur vaktina þar og svo getur vel verið að ég kíki á nokkrar æfingar. Þetta verður allt opið og vinalegt,"
sagði hann í lokin.


Athugasemdir
banner
banner