Hrvoje Tokic hefur yfirgefið herbúðir Ægis samkvæmt heimildum Fótbolta.net eftir að samningnum var rift í dag.
Tvennum sögum fer af því hvor aðilinn það var sem óskaði eftir riftun en ljóst er að sóknarmanninum er frjálst að leita annað.
Tokic gekk til liðs við nýliða Ægis í Lengjudeildinni fyrir tímabilið en hann kom við sögu í 8 leikjum og skoraði tvö mörk. Hann skoraði í síðasta leiknum sínum fyrir liðið um helgina þegar Ægir vann botnslaginn gegn Njarðvík.
Ægir tilkynnti í gær að liðið hafi náð í David Bjelobrk sem er serbneskur framherji. Þess má svo geta að vængmaðurinn Djordje Panic hefur fengið leikheimild með Ægi og spilar með liðinu næstu leiki, áður en hann heldur til Bandaríkjanna í nám. Panic lék með Ægismönnum í fyrra.
Athugasemdir