Það vakti athygli á sunnudag þegar Stjarnan og Steven Caulker komust að samkomulagi um riftun á samningi Caulker. Hann gekk í raðir Stjörnunnar um mitt mót og var spilandi aðstoðarþjálfari liðsins. Samningur hans átti að renna út eftir næsta tímabil.
Fótbolti.net ræddi við Jökul Elísabetarson, þjálfara Stjörnunnar, um tíðindin.
Fótbolti.net ræddi við Jökul Elísabetarson, þjálfara Stjörnunnar, um tíðindin.
„Þetta er frekar einfalt, þetta er peningalegs eðlis, félagið tók ákvörðun. Caulker er með fókus á því að verða þjálfari og ætlaði ekki að spila næsta sumar. Ég held að þetta sé að lógísk og eðlileg niðurstaða," segir Jökull.
Caulker var á of háum samningi miðað við að ætla ekki að spila áfram.
„Það er ekkert flókið, hann er fyrrum úrvalsdeildarleikmaður, með reynslu og feril sem menn þekkja. Það er bara pakki."
„Það var geggjað að fá hann inn, hann var frábær að öllu leyti, bæði sem þjálfari og leikmaður. Ég veit að hann lærði, en ég lærði líka helling af honum og liðið. Ég held að hvorugur okkar sé þar að við höfum verið einhvers staðar nálæg því að vera búnir með þá vinnu sem við vorum í."
Caulker er 33 ára miðvörður sem var á sínum tíma á mála hjá Tottenham og Liverpool. Hann lék alla leiki Stjörnunnar eftir að sumarglugginn opnaðist og hjálpaði liðinu að landa Evrópusæti.
Þarftu að fá inn miðvörð?
„Við munum örugglega skoða miðvörð og örugglega flestar stöður. Við erum frekar fjölmennir á miðjunni og í hægri bakverði. Við munum skoða hvernig við getum styrkt liðið. Við munum held ég pottþétt bæta við tveimur leikmönnum fyrir næsta tímabil og það munu einhverjir kveðja," segir Jökull.
Athugasemdir





