mið 19. febrúar 2020 21:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rashford ekki meira með á þessu tímabili?
Marcus Rashford.
Marcus Rashford.
Mynd: Getty Images
Paul Pogba.
Paul Pogba.
Mynd: Getty Images
Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, var á fréttamannafundi fyrr í dag og ræddi þar um stöðuna á Marcus Rashford og Paul Pogba sem eru báðir að glíma við langvarandi meiðsli.

Man Utd mætir Club Brugge í Evrópudeildinni á morgun.

Rashford hefur ekki spilað frá því hann fór meiddur af velli gegn Úlfunum í enska bikarnum í janúar. Rashford er meiddur í baki, en meiðslin stigmögnuðust vegna þess að hann hélt áfram að spila í gegnum sársauka.

Upphaflega var vonast til að hann yrði ekki frá nema í sex vikur. Solskjær sagðist í dag hins vegar ekki vera viss um það hvort Rashford myndi spila meira á tímabilinu.

„Ég var að vona að batinn myndi taka skemmri tíma, en hann verður klárlega frá í nokkra mánuði í viðbót," sagði Solskjær.

Spurning er hvort Rashford verði klár í slaginn fyrir Evrópumótið með Englandi í sumar.

Rashford er 22 ára gamall og var að eiga sitt besta tímabil á ferlinum. Hann er búinn að skora 14 mörk í 22 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Pogba hefur mikið verið frá vegna meiðsla á tímabilinu. Um franska landsliðsmanninn sagði Solskjær: „Hann er ekki byrjaður að æfa með okkur og hann er ekki nálægt því að vera klár í slaginn."

McTominay á æfingu
Stuðningsmenn Manchester United geta þó aðeins huggað sig við það að Scott McTominay er byrjaður að æfa aftur með liðinu. Miðjumaðurinn hefur verið frá síðan í desember á síðasta ári.

Hann fór með í æfingaferð til Spánar í síðustu viku og æfði þá einn. Hann er að snúa til baka eftir hnémeiðsli.

Það verður gleðiefni fyrir United þegar McTominay mætir aftur til leiks en hann hefur verið eitt bjartasta ljósið á frekar erfiðu tímabili liðsins.

McTominay mun þó að öllum líkindum ekki vera í hóp United gegn Club Brugge á morgun.
Athugasemdir
banner
banner
banner