Eins og kom fram hér á Fótbolta.net fyrr í kvöld er Milos Milojevic óvænt hættur þjálfun Víkings R. eftir aðeins þrjár umferðir í Pepsi-deildinni en í tilkynningu Víkings kemur fram að ástæðan sé skoðanaágreiningur sem reyndist óyfirstíganlegur.
„Þetta gerðist hratt, það var ágreiningur sem við náðum ekki að lenda og þá var niðurstaðan sú að við myndum fara í sitthvora áttina," sagði Haraldur Haraldsson framkvæmdastjóri Víkings við Fótbolta.net í kvöld.
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net varð uppákoma eftir sigur liðsins á Haukum í Borgunarbikarnum á miðvikudagskvöldið. Milos og Hajrudin Cardaklija markmannsþjálfara lenti saman sem endaði á því að sá síðarnefndi sagði upp störfum. En var það þessi uppákoma sem gerði útslagið?
„Nei, nei. Það eru nokkur mál. Ég get ekki sagt að þetta sé eitthvað atriði, langt í frá. Það eru ákveðin mál, eitthvað nýtt og eitthvað gamalt og þetta var niðurstaðan að róa í sitthvora áttina," sagði Haraldur sem vildi halda ástæðu málsins fyrir Víking. Hann útilokar þó að uppákoman með Cardaclija hafi haft áhrif á niðurstöðuna.
„Hann var ósáttur eftir þann leik en það er ekki málið í þessu. Við látum ekki þjálfara fara, eða hann hættir útaf markmannsþjálfara," sagði Haraldur.
Víkingar funduðu með Milos í dag og þar varð niðurstaðan sú að leiðir félagsins og þjálfarans myndu skilja.
„Eftir að settumst niður og fórum að ræða málin þá gerðist þetta mjög hratt. Við sáum það ekki fyrir, fyrir daginn í dag að þetta myndi fara svona. Hann er mikill fagmaður, góður þjálfari, mikill grúskari og toppdrengur."'
Víkingar sitja því eftir þjálfaralausir fyrir leikinn gegn Breiðabliki á sunnudaginn. Dragan Kazic aðstoðarþjálfari stýrir liðinu í þeim leik ásamt Cardaclija sem er því hættur við að hætta.
„Við gerum ekkert fyrir leik og fókuserum á leikinn sem lið og félag. Það var óskað eftir að þeir tækjun við liðinu næstu daga á meðan við erum að átta okkur á þessu. Þetta gerðist bara milli fjögur og fimm í dag. Ég á von á að við einbeitum okkur að leiknum og tökum svo stöðuna eftir hann. Við erum með færa menn í Dragan og Cardaclija," sagði Haraldur að lokum við Fótbolta.net.
Sjá einnig
Milos hættur með Víking (Staðfest)
Framkvæmdastjóri Víkings: Þjálfari hættir ekki útaf markmannsþjálfara
Vangaveltur á Twitter: Milos í Breiðablik?
Ívar Örn um Milos: Þetta eru sláandi fréttir
Milos um ágreiningin: Ég er mikill prinsippmaður
Milos með tilboð frá Serbíu
Athugasemdir