Patrik Johannesen leikmaður Breiðabliks var ánægður með úrslit kvöldsins eftir að liðið hans sigraði Fram 3-1 á Kópavogsvelli.
Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 1 Fram
„Þetta var fínn leikur að koma inn á. Ég er búinn að bíða eftir þessu tækifæri smá lengi og það er bara frábært að spila fleiri en 10-15 mínútur. Tilfinningin núna er mjög góð."
Víkingar töpuðu í kvöld fyrir ÍA sem gerir það að verkum að Breiðablik eru búnir að jafna þá af stigum á toppi deildarinnar.
„Þetta er bara frábært fyrir okkur að koma aftur í baráttuna um titilinn. Við erum búnir að leggja mikla vinnu í að reyna vinna titilinn."
Víkingar eru enn í Evrópukeppni og eiga bikarúrslitin eftir. Breiðablik hefur bara deildina til að einblína á og það gæti verið forskot fyrir þá.
„Ég myndi ekki segja það. Þeir eru líka að fókusera á deildina eins og við, og við sjáum bara til hver fer með þetta."
Patrik skoraði virkilega flott aukaspyrnumark til að koma Blikum í 3-1. Höskuldur Gunnlaugsson er yfirleitt spyrnumaður þeirra í þessari stöðu en Patrik fékk tækifærið þarna og nýtti það vel.
„Já Höggi (Höskuldur) tók fyrr í leiknum spyrnu og setti hana bara beint í vegginn þannig ég sagði við hann, þú tekur ekki þessa spyrnu. Hann var bara sammála því og ég setti hann bara í samskeytin."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.