Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV, fékk að líta rauða spjaldið í 2-1 sigri KR á ÍBV fyrr í dag. Þorlákur átti í orðaskiptum við Guðmund Andra Tryggvason, leikmann KR, sem greinilega móðgaði Þorlák og endaði það með því að þjálfarinn var rekinn af velli.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, var spurður út í atvikið í viðtali eftir leik.
Lestu um leikinn: KR 2 - 1 ÍBV
„Nei, ég veit það ekki (hvers vegna Láki fékk rautt spjald). Þeir voru eitthvað að kalla hvorn á annan, ég heyrði ekki hvað fór á milli þeirra. Ég veit ekki, kannski átti Láki ekki að fá rautt spjald fyrir þetta.“
„Ég hins vegar fagna því að það sé loksins farið að taka á dólgslátum þjálfara og aðstoðarmanna þeirra á bekknum. Það er búið að tala um það í tvö, þrjú ár að taka á þessu. Mér finnst dómarar ekki næstum því nægilega harðir. “
„Ég fagna þessu þó ég viti ekki nákvæmlega hvort að Láki hefði átt skilið að fá rautt spjald í þessu tilviki. En ég fagna að menn taki harðar á þessu heldur en ekki. Það þarf að linna að dómarar, fjórðu dómarar og aðrir sitji undir stanslausum árásum frá starfsmönnum á bekknum,“ sagði Óskar eftir leik.
Viðtalið við Óskar má sjá í heild sinni hér að neðan, en hann er spurður út í rauða spjald Þorláks eftir fimm og hálfa mínútu.