KR vann lífsnauðsynlegan sigur á ÍBV fyrr í dag. Liðið mætir Vestra næstu helgi og þarf sigur til að tryggja sér sæti í Bestu-deildinni á næsta tímabili. Guðmundur Andri Tryggvason leikmaður KR mætti í viðtal eftir leik.
Lestu um leikinn: KR 2 - 1 ÍBV
„Virkilega góður karakter í liðinu í dag og mikilvægur sigur, heldur okkur inn í þessu. Við vorum óhræddir, þar til að staðan var 2-1 þá duttum við niður og héldum þessu, sem mér fannst sleppa.“
Guðmundur Andri sótti vítaspyrnu eftir að markvörður ÍBV gerðist brotlegur.
„Markmaðurinn var með báðar hendurnar í andlitinu á mér og ákveður síðan að kýla mig eiginlega, skrýtið. Mér fannst þetta alltaf vera víti.
„Í byrjun leiks vill hann meina að ég hafi stigið ofan á hann. Þá var hann pirraður út í mig út allan leikinn.“
Guðmundur og Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV, áttu í orðaskiptum sem endaði með því að Þorlákur var rekinn af velli.
„Það myndaðist kannski óþarfa hiti þarna sem hefði mátt sleppa. Hann vildi meina að ég væri að henda mér oft í grasið, hann var pirraður og ég var pirraður. Við vorum bara barnalegir held ég.“
Þorlákur sagði að Guðmundur hefði látið ófögur orð falla en Guðmundur vildi ekki greina frá hver þau voru.
Viðtalið við Guðmund má sjá í spilaranum hér að ofan.