Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   þri 19. nóvember 2019 22:20
Magnús Már Einarsson
Íslenskir Tottenham menn svara - Var rétt að reka Pochettino?
Rekinn frá Tottenham.
Rekinn frá Tottenham.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Stórar fréttir litu dagsins ljós í Englandi í dag þegar Mauricio Pochettino var rekinn frá Tottenham eftir fimm ár í starfi.
Fótbolti.net fékk nokkra íslenska Tottenham stuðningsmenn til að tjá sig um ákvörðunina.
Var rétt hjá Tottenham að reka Pochettino?

Hjálmar Örn Jóhannsson, skemmtikraftur
Mín fyrsta hugsun var þegar ég heyrði af þessu var að hér væru gríðarleg mistök, svo koma upp hlutir eins og ekki unnið útileik í Premier síðan janúar. Undanfarið hefur liðið verið andlaust og því miður lítur það þannig út að hann hafi misst klefann eins og menn segja. Ég held að hann hafi bæði orðið óþolinmóður eftir cash til að kaupa og misst focus þar að leiðandi á liðinu og það sást vel í neikvæðni í viðtölum fyrir leiki eins og Man City úti á þessu tímabili.

Fjalar Þorgeirsson, þjálfari
Það er eitthvað sem hefur gengið þarna á í sumar sem hinn almenni stuðningsmaður veit ekki um. Þeir hafa ekki náð að selja leikmenn sem vilja ekki skrifa undir sbr. Eriksen. Þetta hefur komið á ákveðnu ójafnvægi í hópinn og gert Pochettino erfitt fyrir, en ég tel hann vera einn þann besta í bransanum í dag. Kannski var hann kominn á endastöð með ákveðna leikmenn í liðinu og væntanlega ekki fengið allan þann stuðning í leikmannakaupum sem hann hefur viljað. Ég hefði ekki viljað reka hann en fyrst staðan er eins og raun ber vitni vil ég fá Massimiliano Allegri til starfa. Eftir að hafa horft á á Juve þættina á Netflix og séð margar hliðar hans þar tel ég hann vera besta manninn í þetta verkefni núna. Daniel Levy þarf hins vegar að styðja betur við næsta þjálfara varðandi leikmannakaup og ekki bíða fram á Gluggadag til að gera einhverja afsláttardíla.

Ingimar Helgi Finnsson, Fantasy Gandalf
Mér finnst alrangt að láta Maurico Pochettino fara. Svo rangt að ég er hreinlega reiður yfir þessari ákvörðun. Pochettino hefur gert frábæra hluti með lítið sem ekkert til þess að eyða í leikmenn öll þessi ár. Þessi tími átti að vera erfiður sökum mikils kostnaðar sem að fóru í að byggja völlinn en Pochettino hefur séð til þess að þetta hefur verið frábær tími. Ég vildi að hann fengi tækifæri að byrja nýtt 5 ára plan og hreina út og byggja upp leikmannahópinn. Sakna hans strax.

Birgir Ólafsson, formaður Tottenham klúbbsins
Já/Nei …. Blendnar tilfinningar með þessar ákvörðun hjá Levy. Liðið hefur átt mjög erfitt tímabil og alls ekki verið að spila vel í flestum leikja sinna. Í raun hefur 2019 verið skelfilegt hjá Tottenham , fyrir utan Meistaradeildarævintýrið á síðasta tímabili. Liðið hefur bara náð í 40 stig af 90 mögulegum frá áramótum og unnu sem dæmi síðast á útivelli í deildinni 20. janúar. Auðvitað er það mikið áhyggjuefni og spilar eflaust margt þar inní.

En fótboltinn er víst þannig að þegar það gengur illa, er einfaldara að reka þjálfarann en að skipta um leikmenn. Allflestir leikmenn Tottenham hafa verið að spila undir pari á þessu tímabili - en Pochettino á líka sinn þátt í slæmu gengi liðsins. Finnst tímasetningin einnig alveg einstaklega skrítin, þar sem Tottenham átti síðast leik fyrir 10 dögum síðan og aðeins fjórir dagar í næsta leik. En það má ekki taka það af Pochettino að hann náði mjög góðum árangri með liðið og flestir stuðningsmenn Tottenham eiga eftir að muna eftir honum á jákvæðan hátt.

Jóhann Alfreð Kristinsson, Mið-Ísland
Maður er eiginlega hálf dofinn. Það hlýtur eitthvað meira að hanga á spýtunni en bara úrslitin þótt þau hafi ekki verið góð. En ég er eiginlega handviss um að Mourinho taki þá við. Maður þarf aðeins að jafna sig á þessu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner