Joao Pedro í forgangi hjá Liverpool - Man Utd setur verðmiða á Rashford - Real Madrid missir vonina gagnvart Davies
   þri 19. nóvember 2024 11:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Sá ekki ástæðu til að fara frá besta klúbbi landsins - „Var alls ekki í viðræðum við pabba minn"
Með Íslandsmeistaraskjöldinn.
Með Íslandsmeistaraskjöldinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leiknum gegn Víkingi, úrslitaleiknum um titilinn.
Í leiknum gegn Víkingi, úrslitaleiknum um titilinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik í Sambandsdeildinni fyrir ári síðan.
Í leik í Sambandsdeildinni fyrir ári síðan.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Kristinn Ingi Lárusson.
Kristinn Ingi Lárusson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Mig langar að sýna það og sá í raun enga ástæðu til að fara frá besta klúbbi Íslands í dag.'
'Mig langar að sýna það og sá í raun enga ástæðu til að fara frá besta klúbbi Íslands í dag.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Var í stóru hlutverki í byrjun móts en lenti svo í meiðslum.
Var í stóru hlutverki í byrjun móts en lenti svo í meiðslum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Maður þarf alltaf að sinna því hlutverki sem maður fær, eins vel og maður getur, og þjálfarinn ákveður hvað honum finnst henta best.'
'Maður þarf alltaf að sinna því hlutverki sem maður fær, eins vel og maður getur, og þjálfarinn ákveður hvað honum finnst henta best.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristófer Ingi Kristinsson skrifaði í síðustu viku undir nýjan tveggja ára samning við Breiðablik. Fyrri samningur hefði runnið út um áramótin. Sóknarmaðurinn skoraði fjögur mörk í deildinni fyrir Íslandsmeistarana, eitt í forkeppni Sambandsdeildarinnar og eina mark liðsins í Mjólkurbikarnum á tímabilinu. Kristófer, sem er 25 ára, ræddi við Fótbolta.net.

Ákveðið að bíða með aðgerðina þar til eftir tímabil
Þegar Fótbolti.net ræddi við Kristófer var hann nýbúinn í aðgerð á báðum ökklum. Beinflísar voru fjarlægðar en þau meiðsli hafa hrjáð leikmanninn síðustu misseri. Kristófer hefði getað farið í aðgerð síðasta vetur en þá hefði hann misst af stórum hluta tímabilsins í ár. Hann ákvað því að fara í aðgerðina eftir tímabilið. „Ég ákvað að harka af mér, en bauð á sama tíma upp á möguleikann á frekari meiðslum. Ég held þetta séu 2-3 mánuðir núna frá."

Hvernig er ákvörðunin tekin að Kristófer fari ekki strax í aðgerð fyrir síðasta tímabil?

„Ég hef glímt við þetta mjög lengi, alveg frá því að ég var að spila úti. Þetta útskýrir af hverju ég var að einhverju leyti í veseni með meiðsli þegar ég var úti, hef oft pínt mig í gegnum hlutina. Þjálfarateymið, sjúkrateymið og ég tókum ákvörðun í sameiningu. Ef ég hefði farið í aðgerð hefði Breiðablik væntanlega þurft að sækja nýjan leikmann. Mér leið fínt á þeim tímapunkti, gat æft og spilað. Ég ákvað að harka þetta af mér."

Meiðsli settu strik í reikninginn
Kristófer varð Íslandsmeistari en hefði viljað spila meira á tímabilinu.

„Óheppni með meiðsli fyrst og fremst, ég var aðeins hægari í að koma mér af stað. Planið var fyrst að fara í aðgerðina fyrir tímabilið en svo var ákveðið að gera það ekki. Ég þurfti að vinna mig upp í mínútum á undirbúningstímabilinu. Í byrjun tímabils var ég kominn á fínt ról, var kominn í stórt hlutverk en togna í bikarleiknum gegn Keflavík. Þá var ég líklegast búinn að beita mér vitlaust út af ökklanum. Ég var frá í einhverja tvo mánuði; kom til baka en fékk aftur bakslag. Það tók tíma að vinna sig úr því."

„Ég fékk alveg að spila þegar ég kom til baka, en þá er kominn mjög góður taktur í liðið, liðið að vinna leiki og þá er eðlilegt að það sé erfiðara að komast inn í liðið og færri mínútur í boði. Ég hefði viljað spila meira, sérstaklega í lok tímabilsins. Þegar menn eru að standa sig þá verða þjálfarar oftast vanafastir, hlutirnir voru að virkar hjá okkur. Maður þarf alltaf að sinna því hlutverki sem maður fær, eins vel og maður getur, og þjálfarinn ákveður hvað honum finnst henta best. Þjálfarinn þarf að hugsa fyrst og fremst um liðið, en maður vill auðvitað spila eins mikið og mögulegt er."


Stór augnablik
Kristófer skoraði sigurmark Breiðabliks gegn KA í ágúst. Var það hápunkturinn?

„Það er stórt augnablik. Ég myndi líka segja að jöfnunarmarkið á móti ÍA hafi verið stórt. Við fengum trú með því marki og skoruðum sigurmarkið í uppbótartíma."

„Kom ekkert annað til greina en að við myndum vinna"
Kristófer glímdi við veikindi fyrir úrslitaleikinn gegn Víkingi, en gat komið inn á og spilað lokakaflann. Hann fann fyrir leikinn að Blikar myndu vinna.

„Þetta var alveg geggjað, fann að það var mikið sjálfstraust í liðinu. Auðvitað voru menn spenntir og örugglega stressaðir, en trúin var svo mikil á verkefnið. Það kom ekkert annað til greina en að við myndum vinna þennan leik. Þegar við skoruðum í fyrri hálfleik var ákveðið að gefa meira í, vildum ekki leyfa Víkingum að komast í þann gír að eiga möguleika á að koma til baka."

Sérstakt að vinna titil
Sem uppalinn Stjörnumaður, er skrítið að verða Íslandsmeistari með Breiðabliki?

„Ég hafði náttúrulega aldrei orðið Íslandsmeistari í meistaraflokki áður, þetta var sá fyrsti. Mér finnst alveg æðislegt að vera partur af þessu liði, mjög sérstakt að vinna titil. Þó að þetta sé ekki með uppeldisfélaginu þá finnst mér þetta mjög sérstakt."

Þegar Kristófer kom til Breiðabliks sumarið 2023 var vonin á Íslandsmeistaratitli lítil sem engin það tímabilið en Blikar tryggðu sér skömmu eftir komu Kristófers sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

„Ég var fyrst og fremst að koma sjálfum mér á framfæri. Það var verið að dreifa mínútum á milli manna á þeim tíma, mikið álag; bæði spilað í deildinni og í Evrópu. Ég vissi að ég myndi fá einhverjar mínútur."

„Í gegnum árin hafa Blikar verið á meðal bestu liða landsins og spila mjög sjarmerandi fótbolta sem hentar mér. Ég vildi komast í umhverfi þar sem ég gæti bæði fengið mínútur og þróað minn leik."


Vill sýna að hann eigi mikið inni
Ákvörðunin að framlengja, hvernig var hugsunin síðustu vikur?

„Mér líður vel hjá Breiðabliki, þetta er sérstakur hópur og ég er hrifinn af leikstílnum. Þó svo að ég hafi ekki spilað eins mikið og ég hefði viljað, þá finn ég að ég eigi klárlega mikið inni. Mig langar að sýna það og sá í raun enga ástæðu til að fara frá besta klúbbi Íslands í dag. Það er allt til alls fyrir mig sem leikmann til að þróa minn leik og verða betri. Ég sé ekki á þessum tímapunkti eitthvað sem gæti hentað betur."

Fór ekki í samningsviðræður við Val
Valur setti sig í samband við Breiðablik og lét vita af því að félagið ætlaði sér að ræða við Kristófer. Í nýrri stjórn Vals er faðir Kristófers, Kristinn Ingi Lárusson. Hvernig er að vera í viðræðum við pabba sinn?

„Ég var alls ekki í viðræðum við pabba minn," sagði Kristófer og hló. „Hann kom ekkert nálægt þessu. Ég var í raun ekki í neinum viðræðum við Val. Mér skilst að þeir hafi sent á Blikana hvort að þeir mættu ræða við mig, en ég hef ekkert farið í neinar samningsviðræður eða neitt svoleiðis. Það var greinilega einhver áhugi, en fór ekkert lengra en það. Ég var með 100% fókus á Breiðablik og er rosalega sáttur með að hafa náð að klára það."

Einbeitir sér að Breiðabliki og svo gerist það sem gerist
Kristófer var í sex ár í atvinnumennsku, fór frá Stjörnunni 2017 til Willem II í Hollandi, svo til Grenoble í Frakklandi, Jong PSV í Hollandi, næst til SönderjyskE í Danmörku og loks VVV Venlo í Hollandi tímabilið 2022/23. Er draumurinn að eiga geggjað tímabil og fara út næsta haust?

„Auðvitað stefnir maður eins hátt og mögulegt er. En ég fókusa 100% á núið, á Breiðablik, svo gerist það bara sem gerist, verður einhver afleiðing af árangri. Ég hugsa það sem mögulega gulrót að komast út, en einbeitingin og löngunin er að eiga gott tímabil með Breiðabliki, gera vel fyrir félagið og liðið. Ef menn standa sig vel; ef sóknarmenn skora mörg mörk og leggja upp, þá getur orðið afleiðing af góðum árangri."

Það var áhugi á Kristófer frá Kasakstan síðasta vetur en ef marka má hans orð þá rann sá áhugi bara út í sandinn. „Það varð bara ekkert meira úr þessu, ekkert meira um það að segja," segir Kristófer.
Athugasemdir
banner
banner
banner