Amorim langt frá því að hætta - Wirtz fundaði með City - Ensk stórlið vilja Rodrygo
   sun 20. febrúar 2022 10:00
Brynjar Ingi Erluson
Messi eða Ronaldo? - „Alltof ólíkir til að bera þá saman"
Ragnar SIgurðsson og Lionel Messi
Ragnar SIgurðsson og Lionel Messi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á hverjum einasta degi er deilt um það hvor hafi vinninginn; Lionel Messi eða Cristiano Ronaldo? Því er ekki gott að svara en Ragnar Sigurðsson, fyrrum leikmaður íslenska landsliðsins, lét á það reyna í viðtali við Sport24 í Rússlandi.

Ragnar spilaði nokkrum sinnum við Ronaldo á ferli sínum, bæði með íslenska landsliðinu og svo FCK í Danmörku.

Hann mætti honum með FCK í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á Santiago Bernabeu árið 2013 og spilaði þá við hann nokkrum sinnum með landsliðinu, fyrst í undankeppni EM árið 2010 og svo sex árum síðar á EM er liðin gerðu 1-1 jafntefli í Frakklandi.

Ragnar mætti Messi á HM 2018 er Ísland gerði 1-1 jafntefli í Rússlandi þar sem Hannes Þór Halldórsson varði meðal annars vítaspyrnu frá argentínska snillingnum.

„Í fyrstu þá skilur þú ekki alveg á hvaða stigi þú ert að spila og hvaða leikmönnum þú ert að mæta. Þú vinnur bara þína vinnu og það skiptir ekki máli hvort það sé Santiago Bernabeu eða fimm þúsund manna völlur."

„Á meðan leikurinn er í gangi þá finnur þú ekki fyrir stærð augnabliksins. Það er ekki fyrr en nokkrum árum seinna þar sem þú mannst eftir því að hafa barist við Ronaldo og hugsað hvað þetta var ógleymanlegt."

„Þegar við spiluðum við Argentínu á HM þá vörðumst við sem lið og börðumst aðeins við Leo. Þeir eru alltof ólíkir til að bera þá saman en einn á einn þá er Messi hættulegri en Ronaldo því hann er betri í að rekja boltann."

„En ef þú ert að spila í teignum eða í loftinu, þar er Ronaldo óstöðvandi. Hann stekkur fyrr upp og getur hangið í loftinu í langan tíma. Þeir tveir eru auðvitað bestu leikmenn síðustu fimmtán ára,"
sagði hann í lokin.
Athugasemdir