Spænska félagið Real Madrid fundar nú með brasilíska leikmanninum Rodrygo varðandi framtíð kappans en eitt er víst og það er að hann mun ekki fara á neinu tombóluverði í sumarglugganum.
Madrídingar eru sagðir reiðubúnir að selja hinn 24 ára gamla Rodrygo.
Hann hefur ekki verið í stóru hlutverki undanfarið og á eftir þeim Kylian Mbappe og Vinicius Junior í goggunarröðinni.
Brassinn hafði vonast eftir því að með þjálfaraskiptum myndi hann fá annað tækifæri til að koma sér í liðið en Xabi Alonso hefur aðeins verið með hann í aukahlutverki og verður nú framtíð hans rædd næstu daga.
Samkvæmt Fabrizio Romano elskar Rodrygo Real Madrid, en virðist vera að sætta sig við það óhjákvæmilega, sem er að fara og fá tækifærið annar staðar og sérstaklega þegar það er stutt í heimsmeistaramót landsliða.
Arsenal og Liverpool eru þau félög sem hafa sýnt honum áhuga en Rodrygo hefur þegar útilokað að fara til Sádi-Arabíu.
Real Madrid ætlar samt ekki að selja hann ódýrt. Romano segir að félagið muni fara fram á 86 milljónir punda og jafnvel meira.
Rodrygo, sem gekk í raðir Real Madrid árið 2019, hefur komið að 119 mörkum í 270 leikjum sínum með félaginu og unnið þrettán titla.
Athugasemdir