„Mér fannst við spila fínt í dag. Við sköpuðum okkur fullt af færum og spiluðum virkilega fínan leik.“ sagði Ágúst Eðvald Hlynsson, leikmaður Breiðabliks, sem skoraði bæði mörk Blika í dag.
Lestu um leikinn: Breiðablik 2 - 1 Keflavík
Eftir kannski erfiðan fyrri hálfleik fyrir Breiðablik náðu þeir stjórn á leiknum frá A til Ö í seinni hálfleik, en var þetta þolinmæðisverkefni í seinni hálfleik að bíða eftir rétta færinu og taka það?
„Já þetta var pínu þannig í dag. Við fengum samt fullt af færum í fyrri hálfleik til þess að skora fleiri mörk. Síðan fáum við á okkur mjög þreytt mark. En í seinni hálfleik var þetta bara stjórnun hjá okkur. Við spiluðum vel og sköpuðum okkur fullt af færum, það var virkilega gaman að spila í dag.“
Eftir erfitt tímabil í deildinni og að hafa dottið út úr bikarnum eiga Breiðablik FC Struga í næsta leik. Um er að ræða úrslitareinvígi um sæti í Sambandsdeildinni. Hvernig lýst Ágústi á vikuna?
„Ég get ekki beðið. Núna er þessi leikur búin og þá getum við farið að einbeita okkur að Evrópu. Það er bara æfing á morgun og síðan verður líklega fullt af fundum. Við þurfum að undirbúa okkur ekkert eðlilega vel fyrir leikinn úti.“