Seinni partinn í dag er von á tilkynningu frá KSÍ varðandi áætlanir um Íslandsmótið. Mótið er í stoppi vegna Covid-19 faraldursins.
Stjórn KSÍ fundaði í gær og fundar aftur í dag en Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að tilkynning um ákvörðun sé væntanleg.
Stjórn KSÍ fundaði í gær og fundar aftur í dag en Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að tilkynning um ákvörðun sé væntanleg.
Umræða hefur verið í gangi um að hætta keppni vegna faraldursins en sagan segir að stefnt sé að því að klára deildirnar og líklegast að tilkynning verði gefin út um það.
Sögur hafa verið í gangi um að mögulega verði aðeins Pepsi Max- og Lengjudeildirnar kláraðar en það á að ræða það á fundi dagsins.
Talið er að reynt verði að hefja keppni að nýju helgina 7. - 8. nóvember.
Mögulegt er að í tilkynningu KSÍ komi fram að mótinu verði slaufað ef framlenging verður á takmörkunum þann 3. nóvember en lið á höfuðborgarsvæðinu mega ekki æfa með snertingu eða bolta eins og staðan er núna. Á meðan eru ekki hömlur á æfingum utan höfuðborgarsvæðisins.
Þrátt fyrir þessar hörðu og umdeildu takmarkanir á íþróttastarfi sem eru í gildi virðist stjórn KSÍ bjartsýn á að keppnisleikir verði leyfðir aftur á komandi vikum.
Undanfarna daga hefur verið könnun á forsíðu Fótbolta.net um hvað fólk telji réttast í stöðunni varðandi íslenska boltann og Covid-19 stoppið. Þegar þessi frétt er skrifuð hafa tæplega þrjú þúsund manns tekið þátt, 57% telja að flauta eigi mótið af en 43% að bíða eigi lengur og reyna að klára það.
Athugasemdir