„Þetta var ruglað, búið að vera galið. Ég ræddi við þig í byrjun september og þá vorum við sjö stigum frá öruggu sæti. Það var ekkert annað í stöðunni en að trúa," segir Lárus Orri Sigurðsson sem var með lið ÍA í svo gott sem ómögulegri stöðu á botni Bestu deildarinnar þegar haldið var í inn í landsleikjahléið í september.
ÍA sneri gengi sínu heldur betur við og getur ekki fallið þegar ein umferð er eftir. Þegar Lárus samdi við ÍA var hann ráðinn út tímabilið og ákveðið að hann og stjórnin myndu ekki ræða saman um mögulegt framhald fyrr en eftir að tímabilinu lyki. Nú er sæti ÍA tryggt, fimm sigurleikir fyrir leikinn í gær, ef það stendur þér til boða að vera áfram, hvað myndir þú segja?
ÍA sneri gengi sínu heldur betur við og getur ekki fallið þegar ein umferð er eftir. Þegar Lárus samdi við ÍA var hann ráðinn út tímabilið og ákveðið að hann og stjórnin myndu ekki ræða saman um mögulegt framhald fyrr en eftir að tímabilinu lyki. Nú er sæti ÍA tryggt, fimm sigurleikir fyrir leikinn í gær, ef það stendur þér til boða að vera áfram, hvað myndir þú segja?
Eiga eftir að ræða mögulegt framhald
„Ég get ekki svarað þessari spurningu, þetta er ekki komið upp á borðið ennþá. Þetta er flókið dæmi á ýmsa vegu. Þetta er bara sama svar og ég hef gefið, við ræðum þetta eftir tímabilið, núna er tímabilið að verða búið hjá okkur, einn leikur eftir og við búnir að ná markmiðunum," segir Lárus sem staddur er á Akureyri en þar er hann með rekstur. „Ég fer sennilega suður á morgun og á alveg eins von á því að við setjumst niður í vikunni."
Lögðust allir á eitt
En að björguninni, hvað er það sem gerist?
„Það voru tveir leikir lélegir hjá okkur, leikurinn gegn ÍBV í Eyjum og á móti Víkingi heima, þar var komið vonleysi í liðið. Á undan því vorum við flottir, kaflaskiptir leikir, liðið að spila fínt. Við náðum að blása trú í þetta aftur, menn ákváðu að leggjast á eitt, gefa allt sem þeir áttu í leikina sem voru eftir og ef við myndum falla þá myndum við bara falla. Við það held ég að menn hafi hætt að vera hræddir við mistök. Það kom svo í ljós gæðin vor til staðar í liðinu og það var í það góðu formi að við gátum farið í þennan leikstíl sem við höfum spilað í undanförnum leikjum."
Ekki að halda sér uppi út af markinu hjá Vestra
Þið voruð í gær einu flautumarki frá Vestra frá því að vera á leið í úrslitaleik við Aftureldingu í lokaumferðinni. Þórsarinn Ágúst Eðvald Hlynsson skoraði jöfnunarmarkið. Varstu orðinn stressaður fyrir því?
„Nei, í rauninni ekki. Auðvitað var þetta arfaslakur leikur hjá okkur í gær. Tvær síðustu vikur eru búnar að vera mjög erfiðar út af því að við vorum mjög nálægt því að ná þessu markmiði. Þetta fór svolítið í hausinn á mönnum að vera svona nálæg þessu en samt ekki komnir með þetta. Staðan var samt alltaf þannig að á nánast hverjum einasta tímapunkti á tímabilinu þá hefðum tekið því að eiga úrslitaleik í síðustu umferð um að halda sæti okkar í deildinni."
„Þegar ég labba inn í klefa í gær var ég klár með þetta fyrir leikmennina og vissi að menn yrðu tilbúnir í það, sérstaklega eftir þennan leik á móti KA og þá frammistöðu. Menn hefðu verið klárir í þennan úrslitaleik á móti Aftureldingu ef hann hafði orðið."
„Ég var orðinn meira hræddur með veðrið og aðstæður uppi á Skaga, það gæti orðið eitthvað flækjustig með það í vikunni. En ég hefði farið óhræddur í þann leik."
„Svo er annað sem við verðum að hafa í huga við þessa dramatík sem átti sér stað í gær við þetta lokamark hjá Vestra. Auðvitað er það frábært og auðvitað gott að eiga þessa viku sem er framundan, en við erum ekki að halda okkur í deildinni út af þessu marki hjá Vestra. Við erum að halda okkur í deildinni út af því að við erum með 31 stig. Það má ekki gleymast í umræðunni," segir Lárus.
Lokaleikur ÍA á tímabilinu verður á Akranesi næsta laugardag þegar Afturelding, sem þarf að vinna leikinn til að eiga möguleika á því að halda sér uppi, kemur í heimsókn.
Athugasemdir