Nkunku til Barcelona? - Man Utd hefur áhuga á Osimhen - Díaz ánægður á Anfield
   þri 21. febrúar 2023 19:07
Hafliði Breiðfjörð
Lengjubikarinn: Gísli dónalegur í sigri Leiknis á Breiðabliki
Gísli Eyjólfsson sendir ljósmyndara Fótbolta.net skilaboð í leiknum.
Gísli Eyjólfsson sendir ljósmyndara Fótbolta.net skilaboð í leiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir

Leiknir 2 - 0 Breiðablik
1-0 Daníel Finns Matthíasson ('24, víti)
2-0 Jón Hrafn Barkarson ('82)

Leiknir vann mjög svo óvæntan 2 - 0 sigur á Breiðabliki í 2. riðli Lengjubikars karla í dag.


Leiknismenn komust yfir um miðjan fyrri hálfleik en þeir fengu þá vítaspyrnu eftir að Róbert Quental átti sendingu sem fór í hönd Davíðs Ingvarssonar leikmanns Blika innan vítateigs. Daníel Finns Matthíasson sem kom á dögunum heim í Leikni á láni frá Stjörnunni skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni.

Gísli Eyjólfsson leikmaður Breiðabliks meiddist í fyrri hálfleik og varð að yfirgefa völlinn. Er hann gekk af velli veittist hann með fúkyrðum og merkjasendingum að Jónínu Guðbjörgu Guðbjartsdóttur ljósmyndara Fótbolta.net sem var við störf á vellinum.  Myndin sem fylgir fréttinni sýnir Gísla við þetta atvik. Gísli fékk  heilahristing og þurfti að leita á sjúkrahús eftir að hann fór af velli.

Breiðablik tefldi fram gríðarlega sterku liði en gekk illa að skapa sér opin færi. Það var svo úr skyndisókn sem varamaðurinn Jón Hrafn Barkarson kláraði leikinn, komst framhjá markverðinum og renndi boltanum í netið.

Þetta var þriðji leikur Breiðabliks í riðlinum, þeir höfðu áður unnið FH og Selfoss, bæði 3 - 1 og eru í toppsætinu með 6 stig. Leiknir var að ná í sín fyrstu þrjú stig í riðlinum og er komið í 2. sæti, með jafnmörg stig og FH og Selfoss en betri markatölu.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna á vef KSÍ

*Fréttin var uppfærð 19:15 með upplýsingum frá Breiðabliki um að Gísli hafi fengið heilahristing.


Athugasemdir
banner
banner