„Stjarnan er með gott lið en við eigum að vera betri," sagði Ronny Deila, knattspyrnustjóri Celtic, á fréttamannafundi í Garðabænum í dag.
Á morgun klukkan 19:15 er seinni leikur Stjörnunnar og Celtic í undankeppni Meistaradeildarinnar en Skotarnir unnu 2-0 sigur á heimavelli.
Á morgun klukkan 19:15 er seinni leikur Stjörnunnar og Celtic í undankeppni Meistaradeildarinnar en Skotarnir unnu 2-0 sigur á heimavelli.
„Stjarnan er með gríðarlega vinnusamt lið og eru vel skipulagðir. Það var erfitt að brjóta þá niður í fyrri leiknum þar sem þeir lágu mjög aftarlega. Okkur gekk erfiðlega að brjóta ísinn og þess utan fengu þeir tvö góð færi í upphafi seinni hálfleiks."
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, sagði á fréttamannafundi fyrr í dag að litli leikvangurinn í Garðabæ og gervigrasið myndi fara í taugarnar á leikmönnum Celtic.
Þessu er Deila ekki sammála og segir sína menn ekki vera að upplifa neitt nýtt.
„Hann verður að ferðast um Skotland og kíkja á nokkra leiki þar. Ég veit ekki hvað hann heldur um skoska boltann. Það er ekki bara Celtic Park í Skotlandi. Hann getur farið til Inverness eða Ross County þar sem aðstæður eru ekki ósvipaðar og hérna," sagði Deila.
„Við höfum mikla reynslu af svipuðum aðstæðum á Skotlandi. Við höfum spilað útileiki þar sem það eru ekki margir áhorfendur, þó við séum heppnir að vera með 50 þúsund manns á heimaleikjunum. Mínir leikmenn eru vanir mjög misjöfnum leikvöngum svo við erum tilbúnir í þetta og ég hef ekki áhyggjur."
„Við höfum leikið á gervigrasi og unnið þá leiki. Við æfum á vellinum í kvöld, góð lið vinna sama hvernig völlurinn er. Það er betra að spila á góðu gervigrasi en slæmum grasvelli. Allir vilja spila á góðu grasi eins og á Celtic Park en við höfum staðið okkur vel á gervigrasvöllum, bæði hjá Hamilton og Kilmarnock."
Leikur Stjörnunnar og Celtic á morgun hefst 19:15 og verður í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.
Athugasemdir