Man Utd að styrkja sóknarleik sinn - Frimpong búinn í læknisskoðun hjá Liverpool - Villa hefur áhuga á Kelleher
   þri 20. maí 2025 23:00
Ívan Guðjón Baldursson
Pep: Vildum sigra þennan leik fyrir De Bruyne
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Pep Guardiola var kátur eftir 3-1 sigur Manchester City gegn Bournemouth fyrr í kvöld. Sigurinn gæti reynst afar dýrmætur í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu fyrir næstu leiktíð.

Belgíski miðjumaðurinn Kevin De Bruyne var að spila sinn síðasta heimaleik fyrir félagið og kvaddi stuðningsmenn í leiðinni.

„Hann á alla þessa ást skilið eftir það sem hann hefur gert fyrir þetta félag ár eftir ár," sagði Guardiola þegar hann var spurður út í De Bruyne að leikslokum. „Við vildum sigra þennan leik fyrir hann. Kevin hefur verið ótrúlega mikilvægur hlekkur í liðinu okkar."

De Bruyne klúðraði algjöru dauðafæri í fyrri hálfleik en átti fínan leik þar til honum var skipt af velli í síðari hálfleik. Nico González kom inn af bekknum fyrir De Bruyne og innsiglaði sigur heimamanna í Manchester. Hann er kominn aftur úr meiðslum eins og samlandi sinn Rodri, sem kom einnig inn af bekknum undir lokin. Þeir gætu reynst mikilvægir þegar Man City mætir til leiks í lokaumferð deildartímabilsins á útivelli gegn Fulham og nægir eitt stig til að tryggja sér Meistaradeildarsæti.

„Þetta eru frábærar fréttir fyrir okkur að fá Nico og Rodri aftur. Það er synd að vera ekki búnir að tryggja okkur sæti í Meistaradeildinni en þetta er enn í okkar höndum. Við munum gera allt í okkar valdi til að sigra í lokaumferðinni.

„Það mikilvægasta í dag var að sigra leikinn og okkur tókst það gegn feykilega sterkum andstæðingum. Þeir rústuðu okkur í fyrri leiknum í deildinni en núna sigruðum við. Þetta eru alltaf opnir og skemmtilegir leikir gegn Bournemouth, frábærir fyrir áhorfendur."

Athugasemdir
banner
banner