„Við vorum bara slakir í þessum leik. Við byrjum vel og fáum algjört dauðafæri sem við hefðum átt að nýta, það var alltaf að fara að skipta máli í þessum leik að skora fyrsta markið. Þessi leikur var alveg jafn þannig en þeir voru bara ofan á í baráttunni í dag og vildu þetta meira. Við koðnuðum niður og það vantaði bara hjá okkur. Okkur vantaði tvo lykilmenn fram á við í dag en það er engin afsökun. Það var allt undir hjá þeim og gerðu þetta vel.“ sagði Mikael Nikulásson, þjálfari KFA, eftir 2-0 tap í Ólafsvík í dag.
Lestu um leikinn: Víkingur Ó. 2 - 0 KFA
Mikael var allt annað en sáttur með dómgæsluna í dag og biður dómarana um að setja sig í stand.
„Mér fannst dómgæslan ekki góð í dag. Þeir gátu ekki einu sinni dæmt innköst. Það kom 6 til 7 sinnum fyrir að boltinn var farinn útaf en þeir dæmdu ekkert. Ég er búinn að fara yfir þetta oft áður í þættinum hjá mér. Setjið ykkur í stand. Ég veit að við vorum ekkert í frábæru standi í dag en ég geri kröfu að þetta sé rétt.“
„Það er alveg klárt að það er brot úti á miðjum velli fyrir framan nefið á dómaranum þegar þeir eru ekki búnir að gera neitt í þessum leik og við með öll tök á honum. Þá er brot úti á velli, 100% aukaspyrna og ég bara skil ekki afhverju hann flautar ekki. Svo fara þeir upp í sókn og skora 1-0 sem gaf þeim blóð á tennurnar. Það er bara þannig.“
Mikael var vægast sagt ósáttur með dómgæsluna í dag.
„Ég var búinn að segja við hann að við ætluðum að skipta næst og svo spyr bara dómarinn hvort ég vilji skiptinguna. Ég var búinn að segja skiptum næst og þá er allt í lagi að nota common sense. Við vorum þrír á tvo, áttum innkast og gátum tekið það hratt. Þá lætur línuvörðurinn bara gera það, hann hlýtur að fatta það að ég vilji taka skiptinguna næst þá. Ekkert alvarlegasti hlutur í heimi en verið á tánum. Þið erum að mæta hérna að dæma og fáið borgað fyrir það. Er ekki allt í lagi að vera þá bara aðeins á tánum og lesa leikinn? En dómararnir eyðilögðu ekkert þennan leik, við töpuðum honum bara sanngjarnt.“
Það vakti gífurleg athygli fyrir leikinn að Ríkharð Óskar Guðnason, betur þekktur sem Rikki G, var í liðstjórn KFA í dag.
„Hann var bara hérna á staðnum að skemmta hérna í gær. Ég er bara einn hérna og það er enginn með mér. Það er bara staðreynd. Það er gott að hafa einhvern aðstoðarmann á bekknum. Ég er þjálfari liðsins og ráðinn sem þjálfari liðsins. Hann var að skemmta hérna í gær, væntanlega fyrir fullu húsi, og var að fara að mæta á leikinn. Ég spurði hvort hann væri ekki til í að vera með mér á bekknum þar sem ég var gjörsamlega einn.“
„Það er bara þannig að ef einhver meiðist væri það fyrir neðan allar hellur að þjálfari liðsins þurfi að hlaupa inn á og vera sjúkraþjálfari líka. Hann reddaði mér í dag og kann ég honum bestu þakkir fyrir það.“
Það vakti athygli í liðni viku að það skoruðu tveir leikmenn fæddir 2009 í Fótbolta.net bikarnum.
„Það eru fullt af ungum strákum hérna. 80-90% af okkar leikmönnum eru íslendingar. Við og Selfoss erum að spila á flestum uppöldum leikmönnum í þessari deild fyrir utan kannski KFG sem er svolítið öðruvísi. Allir halda að KFA sé stútfullt af útlendingum en 90% leikmönnum liðsins eru íslenskir strákar. Í dag voru tveir erlendir og í seinasta leik var einn. Það er svosem fínt en mér er drullusama. Hvort sem það eru íslendingar eða útlendingar skiptir mig engu máli.“
Það er ekert jákvætt sem Mikael getur tekið úr þessu í dag.
„Ég tek ekkert jákvætt út úr þessum leik í dag. Þetta var fyrsti leikurinn okkar í sumar sem er 50/50 leikur en við töpum sanngjarnt.“
Viðtalið við Mikael má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.