Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
banner
   þri 21. september 2021 12:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Steini skaut aðeins á Gunnhildi - „Ekki tala um þetta"
Icelandair
Gunnhildur á landsliðsæfingu
Gunnhildur á landsliðsæfingu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Steini landsliðsþjálfari
Steini landsliðsþjálfari
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsfyrirliðinn Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir sat fyrir svörum á fréttamannafundi í hádeginu í gær. Í kvöld fer fram leikur Íslands og Hollands á Laugardalsvelli og er um að ræða fyrsta leik í undankeppni fyrir HM.

Undirbúningsfundir, fer lengri tími í alla fundi fyrir leik gegn svona sterku liði?

„Við spilum bara einn leik í þessu verkefni þannig við höfum haft fleiri daga til að undirbúa okkur. Þetta er bara svipaður undirbúningur eins og fyrir flesta leiki, við getum ekki verið að breyta neinu þannig séð. Steini er búinn að fara mikið yfir Holland og svo okkar leiki."

„Ég held að við þurfum mest að einbeita okkur að okkar leik en auðvitað þurfum við að hafa áhyggjur af nokkrum leikmönnum hjá þeim. Við höfum oft spilað á móti toppliðum og mér finnst persónulega best að spila á móti bestu liðunum, þá veistu hvar þú stendur."


Hvernig er stemningin fyrir fyrsta keppnisleik undir stjórn nýs þjálfara?

„Stemningin í hópnum er virkilega góð, hún er alltaf góð hjá okkur. Þetta er skemmtilegur hópur, nokkrar nýjar og margar kempur líka. Þetta er góð blanda af gömlum og svo ungum hungruðum stelpum. Ég hlakka alltaf til að mæta í landsliðsverkefni, þetta er geggjaður hópur og allar stelpurnar eru með sjálfstraust í að mæta í þennan leik. Við erum búin að vinna vel í vikunni, erum tilbúin og ætlum okkur sigur."

Eru þær stelpur sem fengu sín fyrstu tækifæri í síðustu undankeppni farnar að láta finna meira fyrir sér í klefanum?

„Já, þessar ungu eru eiginlega orðnar mestu reynsluboltarnir, eru miklir karakterar." Landsliðsþjálfarinn skaut aðeins á Gunnhildi á þessum tímapunkti og sagði að Gunnhildur hafi tapað í keppni á æfingu. Gunnhildur svaraði: „Ekki tala um þetta, það var einhver mótvindur, fyrsta skipti sem þær vinna." Allt saman á léttu nótunum, Gunnhildur hélt svo áfram að ræða hópinn:

„Hópurinn er sterkur og þær nýju eru líka komnar vel inn í þetta. Það er gaman að sjá hversu efnilegar stelpur við eigum og þær eru strax orðnar miklir leiðtogar. Ég er spennt fyrir framtíðinni."

Er einhver leikmaður í hollenska liðinu sem þú ert sérstaklega spennt að mæta?

„Sóknarlínan þeirra í heild sinni sé mjög góð og við þurfum að passa okkur á henni. Það er alltaf gaman að mæta leikmönnum sem skora mikið [markavélin Vivianne Miedema]. Sóknarlínan yfir höfuð er frábær og það er kannski ekki neinn einn leikmaður sem ég er spenntari að mæta en annar. Mér finnst alltaf að spila á móti þeim bestu," sagði Gunnhildur.

Leikurinn í kvöld á að hefjast klukkan 18:45.
Athugasemdir
banner
banner