Valgeir Valgeirsson er samkvæmt heimildum Fótbolta.net að ganga í raðir Breiðabliks. Hann kemur til félagsins frá Örebro þar sem samningur hans rann út eftir að tímabilinu í Svíþjóð lauk. Samkvæmt sömu heimildum stóð valið á endanum á milli Víkings og Breiðabliks en fleiri íslensk félög höfðu áhuga á Valgeiri.
Hann er uppalinn í HK og hélt til Svíþjóðar um sumarið 2022 og var því í tvö og hálft tímabil úti. Örebro var allan þann tíma í næstefstu deild Svíþjóðar.
Valgeir, sem er 22 ára, lék á kantinum hjá HK en hefur að mestu spilað sem bakvörður úti í Svíþjóð og með U21 landsliðinu.
Valgeir var árið 2022, áður en hann hélt í atvinnumennsku, sterklega orðaður við Breiðablik. Hann á að baki 35 leiki fyrir yngri landsliðin, þar af ellefu fyrir U21 landsliðið sem hann gekk upp úr í síðasta mánuði.
Íslandsmeistararnir eru mjög virkir á markaðnum þessa dagana því félagið tilkynnti um endurkomu Ágústs Orra Þorsteinssonar til félagsins í dag og félagið er einnig að kaupa Óla Val Ómarsson.
Athugasemdir