Robert Lewandowski skoraði eina mark leiksins er Pólland sigraði gegn Litháen í fyrstu umferð í undankeppni fyrir HM á næsta ári.
Lewandowski er 36 ára gamall og hefur verið í miklu stuði með Barcelona á tímabilinu þrátt fyrir hækkandi aldur. Hann er kominn með 35 mörk í 40 leikjum á tímabilinu en það hægðist aðeins á markaskoruninni hjá honum í mars.
„Ég er búinn að vera að glíma við smávægileg meiðsli síðustu þrjá leiki en mér líður betur núna," sagði Lewandowski eftir að hafa spilað 90 mínútur gegn Litháen.
„Ég þarf að hvíla mig á milli leikja til að meiðslin versni ekki. Ég held að þetta muni allt fara vel, ég vona að þetta sé ekkert alvarlegt."
Lewandowski er búinn að skora tvö mörk í síðustu fjórum leikjum og hefur spilað nánast hverja einustu mínútu þrátt fyrir meiðslavandræðin.
Athugasemdir