Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 22. maí 2023 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Alfreð biður liðsfélaga og stuðningsmenn afsökunar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn Alfreð Finnbogason fékk að líta rauða spjaldið í fyrri hálfleik þegar Lyngby tapaði fyrir OB í mikilvægum leik í dönsku úrvalsdeildinni í gær.

Alfreð var í byrjunarliði Lyngby en hann fékk beint rautt spjald eftir 17 mínútna leik. Hann handlék þá knöttinn og bjargaði þannig marki. Dómari leiksins rak Alfreð af velli og OB skoraði úr vítaspyrnunni.

Í kjölfarið gengu gestirnir á lagið og unnu öruggan 0-4 sigur. Góðu fréttirnar fyrir Lyngby eru þær að Aalborg BK tapaði sínum leik gegn Midtjylland og því er enn von fyrir Lyngby í baráttunni sem framundan er.

Alfreð ræddi við heimasíðu Lyngby eftir leikinn í gær og sagðist vera mjög leiður.

„Auðvitað átti ég ekki að gera þetta en þetta voru bara viðbrögð hjá mér. Ég bað strákana afsökunar eftir leikinn og ég bið stuðningsmennina líka afsökunar. Þeir áttu betra skilið en þetta vonda tap," sagði Alfreð.

Næsti leikur Lyngby er eftir viku þegar liðið mætir AaB á heimavelli. Alfreð getur ekki verið með þar en hann ætlar að gera allt sem hann getur til að hjálpa liðinu í undirbúningnum.
Athugasemdir
banner
banner