Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
banner
   fös 22. júlí 2022 11:43
Elvar Geir Magnússon
Mótherjum Blika refsað af UEFA - Áhorfendabann vegna rasisma
Stuðningsmenn Podgorica á Kópavogsvelli í gær.
Stuðningsmenn Podgorica á Kópavogsvelli í gær.
Mynd: blikar.is
Buducnost Podgorica.
Buducnost Podgorica.
Mynd: Getty Images
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hefur sjaldan verið eins mikið að gera í gæslu á Kópavogsvelli eins og í gær þegar Breiðablik vann 2-0 sigur gegn Buducnost Podgorica frá Svartfjallalandi í fyrri viðureign liðanna í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Rúmlega 50 stuðningsmenn liðsins komu til Íslands og létu vel í sér heyra á Kópavogsvelli. Lögreglan var mætt á staðinn og fylgdist með þeim.

Lestu um leikinn: Breiðablik 2 -  0 Buducnost

Það er hinsvegar hegðun leikmanna og starfsliðs Buducnost sem helst er í umræðu eftir leikinn í gær. Menn létu öllum illum látum og uppskáru þrjú rauð spjöld, tvö á leikmenn og eitt á þjálfara liðsins. Þá var allt á suðupunkti eftir leikinn.

„Ég man ekki eftir að séð viðlíka reiði og heift af hálfu nokkurs fótboltaliðs og þess svartfellska í kvöld," segir í umfjöllun blikar.is og Arnar Laufdal skrifaði í skýrslu sína: „Buducnost liðið og starfsfólkið í heild sinni. Þeirra hegðun utan vallar sem innan var til skammar. Aldrei séð annað eins."

Það var mikill pirringur í mönnum þó rauðu spjöldin hafi klárlega verið hárréttar ákvarðanir hjá úkraínskum dómara leiksins.

Sekt og lokuð stúka
Það eru ekki ný tíðindi að það séu læti á leikjum Buducnost Podgorica því UEFA hefur sektað félagið fyrir hegðun stuðningsmanna í leik gegn Llapi frá Kosóvó í fyrstu umferð forkeppninnar.

Áhorfendur voru með borða með skilaboðum sem hafa verið skilgreind sem kynþáttaníð því hefur félagið þurft að borga rúmlega 35 þúsund evrur í sekt.

Auk þess verður hluti af stúkunni í heimaleik liðsins gegn Breiðabliki í næstu viku lokaður, sá hluti þar sem háværustu stuðningsmenn liðsins halda sig. Í þeim hluta verður í staðinn settur upp dúkur með áletruninni 'No to racism'.

UEFA mun væntanlega refsa Buducnost Podgorica enn frekar eftir leikinn í Kópavoginum í gær. Vísir segir að eftir leikinn hafi sérstaklega verið þjarmað að Damir Muminovic, miðverði Breiðabliks, sem mun hafa tjáð sig við menn á serbnesku.

Rauða dreglinum verður ekki rúllað út
Fróðlegt verður að sjá hvaða móttökur Breiðablik fær í seinni leiknum í Svartfjallalandi á fimmtudaginn í næstu viku. Óskar Hrafn Þorvaldsson var spurður að því hvort hann hefði áhyggjur af móttökunum?

„Nei en ég geri ráð fyrir að þeir verði ekki á vingjarnlegu nótunum. Ég á ekki von á því að það verði rúllað út rauðum dregli og borið kampavín og kavíar í okkur. Það er ljóst," sagði Óskar sem var gáttaður á framgöngu gestaliðsins.

„Ég held að bæði rauðu spjöldin voru hárrétt, engin spurning að leikmaður númer 3 átti að fá rautt og ekki annað hægt að gera en að henda þessum mönnum af velli. Þjálfarinn var búinn að fara þrisvar inn á völlinn og hagaði sér eins og apaköttur, það er ekkert annað orð yfir það. Þetta var bara ákveðið stjórnleysi hjá þeim."
Óskar Hrafn: Þjálfari þeirra hagaði sér eins og apaköttur
Athugasemdir
banner
banner
banner