
Það eru nokkrar mínútur í að byrjunarlið Íslands fyrir leikinn gegn Kósovó verði opinberað. Rétt áðan ræddi Fótbolti.net um landsliðið við Harald Árna Hróðmarsson, þjálfara Grindavíkur.
„Það eru spennandi tímar með nýjum þjálfara. Liðið hefur verið í mótun og svo kemur Arnar og snýr þessu svolítið á hvolf. Þetta er mjög spennandi. Þetta er rosalegt púsluspil fyrir Arnar með alla þessa gæðamenn fram á við og á miðsvæðinu," segir Haraldur.
„Hann er óútreiknanlegur og líka mjög hugaður. Það kemur manni ekki á óvart ef það verða talsverðar breytingar. Hann sagði fyrir þessa leiki að hann vildi sjá framþróun hjá liðinu frekar en kreista fram úrslit."
Haraldur spáir því að ekki þurfi framlengingu eða vítakeppni til að knýja fram úrslit.
„Ég hef fulla trú á þessu liði, við erum að spila við sterkan andstæðing en ég sé okkur vinna með tveimur."
Sagan segir að Hákon Arnar Haraldsson sé að glíma við meiðsli og verði ekki í liðinu í dag.
„Það er súrt en það er allavega skárra þó að leikmaður sem spili stöðu sem við eigum nóg af mönnum í meiðist. Það væri verra ef við hefðum misst einhvern úr vörninni, það er vont að missa Hákon en við getum leyst hann af hólmi. Við eigum nóg af mönnum," segir Haraldur.
Viðtalið má sjá í heild hér að neðan:
Athugasemdir