Liverpool vill Guehi næsta sumar frekar en að gera janúartilboð - Man Utd dreymir um að fá McTominay aftur - Everton hefur áhuga á leikmönnum Man Utd
banner
   þri 30. desember 2025 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Sölvi talar um jákvæðan höfuðverk - Styttist í Svein Margeir
Ansi mikil breidd hjá Víkingi.
Ansi mikil breidd hjá Víkingi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elías Már kominn í Víkina.
Elías Már kominn í Víkina.
Mynd: Víkingur
Valdimar var besti leikmaður Íslandsmótsins í sumar.
Valdimar var besti leikmaður Íslandsmótsins í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sveinn Margeir kom frá KA fyrir síðasta tímabil.
Sveinn Margeir kom frá KA fyrir síðasta tímabil.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur hefur fengið til sín kantmanninn Björgvin Brima Andrésson og framherjann Elías Má Ómarsson í vetur. Björgvin Brimi var efnilegasti leikmaður 2. deildar í sumar og hjálpaði Gróttu að komast upp í Lengjudeildina. Elías Már er fyrrum landsliðsmaður og hefur verið í áratug erlendis sem atvinnumaður. Þá er markmaðurinn Aron Snær Friðriksson kominn til félagsins frá Njarðvík.

Það er ljóst að samkeppnin um fremstu stöður hjá Víkingi verður mikil. Fótbolti.net ræddi við Sölva Geir Ottsen, þjálfara Íslandsmeistaranna, í gær. Hann var spurður út í breiddina fram á við.

„Þetta er jákvæður höfuðverkur myndi ég segja. Við erum með mjög stóran hóp, marga leikmenn, sem er jákvætt að mínu mati. Við ætlum okkur langt á næsta tímabili, ætlum að spila marga leiki og við þurfum sterkan hóp. Það hefur sýnt sig að þú þarft stóran hóp til að geta barist á öllum sviðum; deild, bikar og í Evrópu. Ég er virkilega sáttur með hópinn eins og hann er núna. Það þarf að vera mikil samkeppni til þess að viðhalda gæðunum," segir Sölvi.

Framherjinn Atli Þór Jónasson er orðaður við Fram og Valdimar Þór Ingimundarson, besti leikmaður Íslandsmótsins 2025, er sagður vilja fara aftur út í atvinnumennsku. Áttu von á því að þeir fari jafnvel?

„Mér fyndist skrítið ef það kæmu engin boð í leikmennina hjá okkur. Við þurfum dálítið að sjá til hvernig glugginn fer. Það er ekkert konkrít komið, við þurfum að vera vakandi fyrir því ef það verða einhverjar breytingar að geta brugðist við því."

Styttist í Svein Margeir
Sveinn Margeir Hauksson lék ekkert með Víkingi á síðasta tímabili og Daði Berg Jónsson hefur verið að glíma við kviðslit. Hvernig er staðan á þeim?

„Þeir eru ekki orðnir heilir. Það fer að styttast í Svein Margeir, þurfum að fara mjög varlega með hann og koma honum hægt og rólega í gang. Ég býst við því að hann geti farið í bolta fljótlega eftir áramót, hann er búinn að vera lengi frá og glímt við leiðinleg meiðsl. Það er ennþá tiltölulega langt í að mótið byrji og við þurfum að passa að fara ekki of geyst í hlutina með hann."

„Daði hefur glímt við leiðinleg meiðsla sem hafa tekið mikið á, var erfitt að finna nákvæmlega hvað þetta er sem hefur verið að plaga hann. Það er aðeins lengra í hann."


Er eitthvað svæði á vellinum sem þú vilt styrkja eins og hópurinn lítur út í dag?

„Ekki eins og staðan er núna, ég er virkilega sáttur með hópinn eins og hann er. En eins og ég segi þá verðum við að vera vakandi ef við missum einhverja leikmenn. Þá þurfum við að vera tilbúnir að geta styrkt okkur í þeim stöðum," segir Sölvi.
Athugasemdir
banner