Víkingur byrjaði af krafti í Bestu deildinni í gær en liðið vann þá 1-2 sigur gegn Stjörnunni í Garðabæ. Það er alveg klárlega hægt að segja að þarna séu engir venjulegir nýliðar á ferð en Víkingar koma upp sem bikarmeistarar.
Þær fóru nokkuð óvænt alla leið í bikarúrslitaleikinn í fyrra og unnu þar eftirminnilegan sigur á Breiðabliki fyrir framan metfjölda á Laugardalsvelli.
Þær fóru nokkuð óvænt alla leið í bikarúrslitaleikinn í fyrra og unnu þar eftirminnilegan sigur á Breiðabliki fyrir framan metfjölda á Laugardalsvelli.
Erna Guðrún Magnúsdóttir og Selma Dögg Björgvinsdóttir spiluðu báðar algjört lykilhlutverk í liði Víkinga í fyrra - og eru það áfram - og voru ótrúlega mikilvægar í mögnuðum árangri liðsins. Þær hjálpuðu liðinu að taka leik sinn upp á næsta stig. Erna Guðrún var valin leikmaður ársins hér á Fótbolta.net og voru þær báðar í liði ársins í Lengjudeildinni.
Þær komu báðar frá FH sem var þá á leið upp í Bestu deildina en þær hefðu líklega spilað gott hlutverk í liði FH í efstu deild ef þær hefðu verið þar áfram.
Erna og Selma voru gestir í Niðurtalningunni hér á Fótbolta.net á dögunum og ræddu þar um ákvörðun sína að fara yfir í Víking fyrir tímabilið í fyrra.
„Við vorum báðar nýbúnar að eignast barn. Erna var búin með samninginn en ég átti eitt ár eftir. Ég bý við hliðina á Víkingsheimilinu og Sölvi (Geir Ottesen), maðurinn minn, er Víkingur. Fyrir mig var þetta nokkuð auðveld ákvörðun. Þær voru í 1. deild og FH komnar upp. Maður vissi ekki alveg hvernig maður stæði eftir barn númer tvö. Þetta var eina rétta skrefið á þeim tímapunkti, allavega hjá mér," sagði Selma í þættinum.
„Ég myndi segja að þetta hafi örugglega verið aðeins erfiðari fyrir mig. Ég er uppalin í FH og bý í Hafnarfirði. Ég var nýbúin að eignast barn og það hljómaði betur að koma inn í 1. deildina en að vera í Bestu deildinni. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun í dag," sagði Erna Guðrún en þær tvær hafa spilað lengi saman. Það hjálpaði þeim að taka ákvörðunina að fara saman yfir í Víking.
„Við erum pakkadíll," sagði Erna og hló. „Þjálfararnir í FH voru svekktir og við höfum fengið að heyra að þetta hafi verið missir. Við mætum þeim í undanúrslitunum í bikar svo. Við förum í góðu og af því við vildum fara í 1. deildina á þeim tímapunkti. Það var skrítið að mæta þarna aftur," sagði Selma.
„Það var skrítið að fara í hinn klefann í Kaplakrika, mjög skrítið. Ég er ekki oft stressuð fyrir leiki en þarna kom upp fiðringur," sagði Erna og tók Selma undir það.
„Við fórum ekki í neinu illu. Að mæta aftur, þá langaði manni að knúsa þjálfarana og stelpurnar, en samt voru þetta undanúrslitin í bikarnum. Þetta var skrítinn dagur fyrir okkur Ernu. Þetta hefði verið aðeins öðruvísi ef okkur hefði verið sparkað úr liðinu og sagt við okkur að við ættum heima í 1. deild. Það var innilega ekki þannig. Þetta var svolítið skrítið."
Þetta er alltaf hægt
Víkingur lagði FH í Kaplakrika og komst í úrslitaleikinn í Mjólkurbikarnum. Sumarið var ótrúlegt í Víkinni þar sem þær unnu allt sem var í boði. Þær urðu fyrsta liðið í sögunni úr næst efstu deild til að vinna bikarkeppnina. Sáu þær strax að það var eitthvað sérstakt í gangi þegar þær mættu í Víkina?
„Já, ég myndi segja það. Umgjörðin í fyrra var náttúrulega bara frábær. Mér leið eins og ég væri komin heim," sagði Selma.
„Þegar leið á undirbúningstímabilið fann maður allavega að við værum á leið upp. Ég held samt að engin af okkur hafi líklega búist við alveg svona rosalega tímabili," sagði Erna, en tímabilið var bara þannig - það var rosalegt.
Þær voru báðar að spila sitt fyrsta tímabil eftir að hafa eignast barn og var Selma að eignast sitt annað barn. Það er alls ekkert grín að koma til baka eftir barnsburð en þær töluðu um það í Niðurtalningunni að það hafi gert þeim gott að koma til baka í nýju liði og fá ferskt upphaf ef svo má segja. „Að fara í nýtt lið og þurfa að sanna sig aftur," sagði Erna Guðrún.
Sumarið var svo algjör draumur og toppurinn var auðvitað bikarúrslitaleikurinn. Undirbúningurinn fyrir leikinn var gríðarlega mikill og það sást þegar í leikinn var komið. Liðsheildin sem hafði myndast á þeim tíma var nánast óstöðvandi.
„Þetta var svo ótrúlega sætt því maður hefur lagt alla vinnuna á sig allan ferilinn og þetta var ótrúlega mikilvægur titill fyrir okkur og fyrir alla leikmennina að eiga. Valur og Breiðablik eiga fullt af titlum en þetta er eini risastóri titillinn okkar. Það voru ótrúlega margar tilfinningar þarna. Og líka eins við komum inn á áðan þá erum við búnar að eignast börn, erum í liði í 1. deild og við erum bikarmeistarar. Þetta var rosalegt," sagði Selma.
„Komandi til baka eftir barnsburð sá maður þetta aldrei fyrir sér, að verða bikarmeistari. Það er peppandi fyrir mæður sem eru að koma til baka. Þetta er alltaf hægt," sagði Erna Guðrún.
„Öll erfiðisvinnan og eitthvað, núna hafði hún tilgang. Þetta var punkturinn yfir i-ið," sagði Selma í þættinum en hægt er að hlusta á hann í heild sinni hér fyrir neðan.
Víkingum er spáð fínu gengi í sumar en þær stefna á að vera í efri hlutanum í Bestu deildinn eftir að hafa komist upp í fyrra. Það verður ótrúlega gaman að fylgjast með þeirra liði í sumar en þær eru svo sannarlega til alls líklegar.
Athugasemdir