„Ég er bara svekktur, við vorum einum fleiri í langan tíma og við lágum á þeim. Það var erfitt að skapa sér færi en ég er fyrst og fremst svekktur að ná ekki í þrjú stig.“ sagði Gabríel Hrannar Eyjólfsson, leikmaður KR, eftir 2-2 jafntefli við FH í dag.
Lestu um leikinn: FH 2 - 2 KR
Gabríel segir fyrri hálfleikinn hafa verið skemmtilegan að horfa á.
„Við byrjuðum þetta ágætlega en fáum svo mark á okkur úr föstu leikatriði sem þeir eru ágætir í. Skemmtilegur fyrri hálfleikur örugglega að horfa á. Við hefðum getað sleppt því að gefa þeim þessar hornspyrnur og föst leikatriði sem mér fannst allan leikinn, þeir eru góðir þar.“
Hvernig sá Gabríel tæklingu Björns Daníels sem endaði með rauðu spjaldi?
„Mér sýndist hann bara hafa tæklað hann og fara frekar hátt í kálfan á honum, en ég veit það ekki, ég sá þetta ekki nógu vel.“
Var högg í magann að fá jöfnunarmarkið á sig skömmu eftir að FH fékk rautt spjald?
„Að sjálfsögðu, við erum að gefa of mikið af föstum leikatriðum sem þeir eru góðir í og nýttu sér vel. Það getur gerst og það þarf að halda áfram og reyna að jafna eins og við gerum og bara taka eitt augnablik í einu.“
Gabríel sér stíganda í spilamennsku KR og sér margt jákvætt í leik liðs síns.
„Mér finnst margt jákvætt og margt sem er hægt að byggja á. En þetta er fínn stígandi og við erum taplausir, vonandi er hægt að bæta ofan á það.“
Viðtalið við Gabríel má finna í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir