Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
banner
   þri 23. júlí 2024 21:09
Ívan Guðjón Baldursson
St. Mirren búið að greina leikstíl Vals í þaula
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur tekur á móti St. Mirren frá Skotlandi á fimmtudagskvöldið og svaraði Mark O'Hara fyrirliði spurningum á fréttamannafundi í dag.

Hann segir að allir innan félagsins séu gríðarlega spenntir fyrir þessum leik enda eru 37 ár síðan St. Mirren spilaði síðast í Evrópu.

„Maður finnur fyrir hversu spenntir stuðningsmenn eru fyrir þessu, þeir geta ekki beðið eftir að horfa á okkur spila í Evrópu. Þetta er frábært tækifæri fyrir okkur til að skrifa söguna hjá félaginu sem við elskum," sagði O'Hara.

„Við viljum komast langt í keppninni, við erum ekki að fara að sætta okkur við að vera slegnir strax út. Við mætum erfiðum andstæðingum strax í fyrstu umferð en höfum fulla trú á að geta náð í úrslit. Markmiðið okkar er að vera ennþá á lífi fyrir heimaleikinn, við megum ekki tapa öllu einvíginu á útivelli. Það er uppselt á seinni leikinn og við viljum gera eitthvað stórkostlegt þar fyrir stuðningsfólkið okkar."

Veðbankar telja St. Mirren vera sigurstranglegri aðilann fyrir útileikinn á Hlíðarenda þrátt fyrir að leikmenn Vals séu í góðu formi á miðju tímabili á meðan St. Mirren er enn á undirbúningstímabilinu.

Þá er Gylfi Þór Sigurðsson í liði Vals og þekkja leikmenn St. Mirren til hans eftir dvöl Gylfa í enska boltanum og frábært mót á EM 2016.

„Við höfum horft mjög mikið á þá spila og vitum nákvæmlega við hverju við eigum að búast. Við höfum verið að greina leiki hjá þeim í þaula og vitum að hérna erum við að spila gegn mjög sterkum andstæðingum. Við horfðum á þá skora fjögur mörk í Albaníu en við erum með leiðir til þess að stöðva uppspilið þeirra. Við munum vera duglegir að pressa á réttum augnablikum og beita skyndisóknum.

„Við þekkjum allir Gylfa Sigurðsson frá tíma hans í ensku úrvalsdeildinni en vonandi tekst okkur að halda honum rólegum. Við þurfum að mæta í þennan leik með fulla einbeitingu og tilbúnir í slaginn gegn andstæðingum sem eru á miðju tímabili.

„Gæðastigið er gott í íslenska boltanum og það er undir okkur komið að sýna þeim hvað við getum."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner