Chelsea verðmetur Jackson á 100 milljónir punda - Rashford efstur á óskalista Barcelona - Sancho til Juventus?
   lau 23. október 2021 17:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Samantekt af fundi eftir leik: Ætla ekki að fara monta mig af því
Icelandair
Mikil gleði
Mikil gleði
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Steini
Steini
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Glódís Perla
Glódís Perla
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Ekki gefa fyrir!
Ekki gefa fyrir!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Svava Rós skoraði eftir að hafa komið inná.
Svava Rós skoraði eftir að hafa komið inná.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Safe hands.
Safe hands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Karólína kom inn á miðjuna.
Karólína kom inn á miðjuna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðrún átti flottan leik í miðverðinum.
Guðrún átti flottan leik í miðverðinum.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Gerði mjög vel í fyrsta markinu!
Gerði mjög vel í fyrsta markinu!
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Ingibjörg varð að gera sér að góðu að byrja á bekknum í gær.
Ingibjörg varð að gera sér að góðu að byrja á bekknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson og Glódís Perla Viggósdóttir, leikmaður landsliðsins, sátu fyrir svörum á fréttamannafundi eftir 4-0 sigur Íslands gegn Tékklandi í gær.

Hér að neðan má sjá samantekt af öllum spurningum og svörum þeirra á fundinum.

Lestu um leikinn: Ísland 4 -  0 Tékkland

Steini um leikinn:
„Mjög glaður og sáttur, gæti ekki verið ánægðari raunverulega. Þessi leikur spilaðist alveg eins og ég bjóst við. Við vorum mjög þolinmóðar og okkur leið mjög vel með boltann. Við vissum að á köflum myndu þær þrýsta okkur niður því þær héldu boltanum vel. Heilt yfir var þetta kannski ekki 4-0 leikur en fótbolti snýst um að skora mörk og við skoruðum mörkin sem maður er mjög ánægður með."

Breytingarnar á byrjunarliðinu:
Tvær breytingar frá Hollandsleiknum. Þú hlýtur að vera mjög sáttur með þessar ákvarðanir núna?

„Já, það er einhver ástæða fyrir því að maður er í þessu starfi. Maður hefur eitthvað fram að færa, maður er ekki bara vitleysingur. Ég taldi þetta vera rétt skref og treysti þeim til að spila þennan leik. Með Karólínu fengum við fjölbreytni inn á miðsvæðinu sóknarlega. Guðrún er góður varnarmaður, á góðum stað og með blússandi sjálfstraust."

Um Dagnýju:
Þurftiru að ræða eitthvað sérstaklega við Dagnýju um að spila djúp á miðju?

„Hún spilar þessa stöðu hjá West Ham en hefur reyndar ekki spilað hana oft í landsliðinu. Það var ekki stórmál og enginn langur fundur tekinn með það."

Um þær sem duttu úr liðinu:
Viðbrögð Ingibjargar og Alexöndru við því að vera á bekknum. Tóku þær því vel?

„Nei, alls ekki, auðvitað eru leikmenn ekkert sáttir við að vera teknir út úr liði og allt svoleiðis. En það er bara mitt hlutverk að velja lið sem ég tel að henti akkúrat í þetta verkefni. Sem betur fer erum við með samkeppni í umhverfinu, erum með góða leikmenn í öllum stöðum og góða leikmenn á bekknum og það er samkeppni. Það er partur af því að vera landsliðsmaður að þú ert komin í samkeppnisumhverfi, þú átt ekki neitt sko þó svo að þú spilir kannski alltaf í sama treyjunúmeri."

Um skiptingarnar í leiknum:
Þorsteinn gerði bakvarðaskiptingu og Ingibjörg kom inn fyrir Dagnýju og spilaði djúp á miðju síðustu mínúturnar. Einhverjir spyrja sig af hverju Amanda hafi ekki spilað sinn annan landsleik fyrst staðan í leiknum var örugg.

„Eins og ég sagði áðan þá er samkeppni í þessu umhverfi og það á engin neitt, það eru tveir leikir í verkefninu. Breytingarnar voru að einhverju leyti til að leyfa leikmönnum að taka þátt í þessu. Hugsanlega verða einhverjir ekki klárir í næsta leik, það geta komið upp meiðsli, við vitum það ekkert núna. Það getur vel verið að ég þurfi að gera nokkrar breytingar sem eru út af meiðslum eða álag."

„Ég hugsaði hvernig er best að vinna Tékkana og ég get ekki verið í einhverjum leik um það hvort þessi eða hin þurfi að spila. Ég spila á því liði sem ég tel best, geri þær skiptingar sem ég tel bestar á þeim tíma. Þannig held ég að flestallir þjálfarar hugsi."


Glódís um nýjan meðspilara í hjarta varnarinnar:
Talsvert rót hefur verið á hver hefur leikið við hlið Glódísar á undanförnum árum og var hún spurð eftir leik kvöldsins hvort þetta væri alltaf jafn auðvelt að spila sig saman með nýjum aðila.

„Þetta eru náttúrulega öðruvísi leikmenn og ekki sama leikmannatýpan. En þótt ég hafi kannski ekki spilað með þeim hvern einasta leik þá hef ég líka æft með þeim lengi og þekki þær vel allar sem leikmenn og þekki þeirra styrkleika.“

„Svo snýst þetta bara um að tala saman inn á vellinum og hjálpa hvor annarri og mér finnst þær allar - sama með hverri ég spila - vega mig upp og ég reyni að vega þær upp og þannig er þetta að virka best.“

„Það er auðvitað ákveðin tryggð í að spila alltaf með sama en eins og ég segi við æfum allar saman og ég þekki þær ótrúlega vel og það skiptir engu máli hver væri að spila þessar tvær stöður hjá okkur. Þær myndu allar finna út úr því og finna góða lausn á því.“


Um Guðnýju:
Þorsteinn var spurður hvernig hann mæti frammistöðu Guðnýjar sem var að spila sinn annan leik í hægri bakverði á landsliðsferlinum. Guðný lagði upp mark í leiknum.

„Bara vel. Hún er bara að þróast og þroskast og ég er bara sáttur við hana. Við fáum flotta hluti frá henni og hún á bara eftir að verða betri."

Glódís Perla benti á að Steini hafi hreint ekki verið sáttur með ákvörðun Guðnýjar að senda boltann fyrir þegar hún lagði upp markið á Gunnhildi Yrsu.

„Heyrðuð þið ekkert í Steina þarna á hliðarlínunni eða? Rétt fyrir fyrirgjöfina þá heyrist bara NEEIII gefðu hann út," sagði Glódís og allir á fundinum hlógu. „Hún tekur allavega sínar eigin ákvarðanir, ánægð með hana."

Glódís Perla talaði einnig vel um Guðnýju. Finnst þér hún vera öruggari í sínu hlutverki?

„Já, klárlega hún er það. Mér finnst hún bara búin að venjast þessu ótrúlega hratt, þetta er náttúrulega bara annar leikurinn sem hún er að spila þarna og þvílíkur stígandi bara, alltaf, bara með hverri mínútunni þannig mér finnst hún bara ótrúlega flott og stendur sig vel. Hún er líka leiðtogi og talar mikið og er örugg á sínu, svo þannig bara ótrúlega flott hjá henni."

Steini um sigurinn:
Finnst þér liðið vera að stíga rétt og góð skref fram á við undir þinni stjórn, eins og með þessum sigri í dag?

„Grundvallaratriðið fyrir okkur farandi inn í þennan leik var að halda þeirri stöðu áfram að við myndum ráða niðurstöðunni í riðlinum. Við erum ennþá í bílstjórasætinu með það og það er undir okkur sjálfum komið hver niðurstaðan verður í riðlinum og að komast á HM.“

„Þannig leit ég á þennan leik sjálfur þótt ég hafi ekki sagt það svo sem við þær (leikmennina) nákvæmlega en við þyrftum að vera áfram í bílstjórasætinu og við erum það ennþá.“

Steini um veðrið:
Veðrið í Laugardal í kvöld var ekki með besta móti en Ásmundur Haraldsson aðstoðarmaður Þorsteins talaði um í viðtali við RÚV fyrir leik að að liðið hugsaði þannig að það væri þeim í hag að það væri blautt og kalt á vellinum. Fannst Þorsteini veðrið vera með Íslandi í liði?

„Ég veit það ekki. Þær eru ábyggilega vanar að spila í allskonar veðri. Vindurinn er kannski sjaldnar hjá þeim heldur en okkur en þær fóru allavega út að hita á stuttbuxum svo að það var ekki eins og þeim væri kalt þegar þær voru að byrja að hita upp.“

Um mörk úr föstum leikatriðum:
Út í mörkin, fyrstu tvö mörkin. Er þetta eitthvað sem þú ert búinn að teikna upp?

„Auðvitað erum við þjálfararnir að reyna búa eitthvað til, hlutir sem eiga að gerast en í sjálfu sér vorum við ekki búnir að teikna þetta nákvæmlega svona upp. Við erum alltaf að leita að einhverjum leiðum og svo eru hundrað breytur í fótbolta. Ég ætla ekki að fara monta mig af því að ég hafi teiknað þetta upp."

Um Berglindi Björg:
Hvernig er staðan á Berglindi sem fór meidd af velli?

„Ég veit ekki hvernig staðan er á henni. Ég held þetta hafi ekki verið neitt alvarlegt, hún labbaði allavega þokkalega eðlilega. Við vonum að þetta sé ekki slæmt."

Um stóran sigur í jöfnum leik:
Þessi leikur virkaði 50:50, Tékkarnir fengu færi en þið skoruðuð mörkin. Ertu ánægður að liðið náði að kreista út svona öruggan sigur í svona jöfnum leik?

„Leikurinn var ekki 4-0 leikur en fótbolti snýst um að skora mörk og verja markið sitt. Við vorum betri en þær í því í dag þótt þær hafi skapað sér færi - Sandra var frábær í markinu og varnarmennirnir voru að verjast vel. Ég hefði líka verið ófboðslega sáttur með 1-0 sigur, þetta snýst allt um sigurinn en frábært að margir leikmenn skoruðu og við kláruðum leikinn af krafti. Það lá aðeins á okkur en við vorum alltaf líkleg til að koma okkur í góða stöðu. Um leið og þær fjölguðu frammi nýttum við það, komumst á bakvið þær eins og í markinu hjá Svövu."

Um fyrirgjafir og staðsetningar:
Fórstu yfir það fyrir leikinn, eftir Hollandsleikinn, að koma með hnitmiðaðari fyrirgjafir og staðsetningar inn á teignum?

„Við fórum aðeins yfir það já, hvernig við vildum spila en ég vildi reyndar ekki að Guðný gæfi hann fyrir þarna, það var eitthvað sem við vorum aldrei búin að fara yfir. Við kláruðum að fara yfir Hollandsleikinn fyrir æfingu á þriðjudaginn og það voru ákveðnir hlutir sem þurfti að laga sem mér fannst við gera betur í dag. Við fengum opnari færi heldur en gegn Hollandi. Leikur liðsins er vonandi að þróast í rétta átt og vonandi heldur það bara áfram."

Um svekkelsið síðast:
Glódís, þú spilaðir gegn Tékklandi í svekkelsinu í síðasta leik gegn þeim. Sat sá leikur eitthvað í ykkur reynslumeiri leikmönnum liðsins? Voruð þið eitthvað að pæla í því?

„Nei, í rauninni ekki. Ekki nema þegar við fengum spurningar frá ykkur (blaðamönnum), það var í raun eina skiptið sem maður hugsaði út í það. Auðvitað vildum við vinna og óháð fyrri leikjum þá þurftum að vinna til að vera í bílstjórasætinu til að komast á HM. Þetta var eitt skref í átt að því. Við þurfum svo að klára næsta leik líka."

Um markafjöldann:
Skiptir máli að vinna leikinn 4-0 frekar en 2-0?

„Það gefur okkur vonandi meira sjáfstraust, meiri trú á því sem við erum að gera sem hjálpar okkur bara í framhaldinu."

Um leikinn gegn Kýpur:
Kýpur, virðist vera fallbyssufóður í þessum riðli. Ertu að fara gefa einhverjum leikmönnum séns eða ferðu með þitt besta lið og ætlar að vinna stórt?

„Við ætlum bara að vinna leikinn, það er í raun það sem við förum inn í. Ég hef ekki ákveðið neitt hvernig liðsskipanin verður. Við skoðum það eftir æfingu á morgun. Að sjálfsögðu þurfum við að fara með réttu hugarfari inn í leikinn og bera þannig virðingu fyrir andstæðingnum að við mætum með réttu hugarfari inn í leikinn. Það er grundvallaratriði sem við þurfum að hugsa út í."

Um jafntefli Hollands og Tékka:
Þú talaðir um stigið sem dó þegar Holland og Tékkland gerðu jafntefli. Er það ennþá betra núna eftir þessi úrslit?

„Já, það má alveg segja það. Er það ekki lógískt? sagði Steini að lokum.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner